Bjartsýnn um afnám gjaldeyrishafta

Sjálfstæðisflokkurinn er með flokksráðsfund í dag.
Sjálfstæðisflokkurinn er með flokksráðsfund í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfsstæðisflokksins, segist aldrei hafa verið bjartsýnni um afnám gjaldeyrishafta en nú. Kom þetta fram  í ræðu Bjarna í upphafi flokksfundar Sjálfstæðisflokksins á Grand Hótel í morgun. 

„Höft eru andstæða frjáls markaðar og liggja nú eins og eitrandi mistur yfir fólkinu í landinu,“ sagði Bjarni. Hann líkti áhrifum gjaldeyrishaftanna við áhrif eiturgufunnar frá eldgosinu í Holuhrauni sem liggur yfir landinu og er óholl bæði mönnum og dýrum. „Áhrifin eru kannski lítil dag frá degi, en þau geta haft mjög alvarlegar afleiðingar ef ástandið er viðvarandi,“ sagði Bjarni.

Hann sagði að lögð yrði sérstök áhersla á að allar aðgerðir í kringum afnám haftanna myndu miða að því að verja núverandi stöðu efnahagslífs í landinu og að öll aðlögun þeirra vegna hefði átt sér stað þegar höftin voru fyrst tekin upp. „Við ætlum ekki að fara í aðra aðlögun,“ sagði Bjarni.

„Ég hef aldrei verið jafn sannfærður og í dag um að við munum ná markverðum árangri á næstu mánuðum í þessum máli.“

Niðurgreiðslur til landbúnaðar of háar

Bjarni sagði afnám gjaldeyrishafta annað tveggja atriða sem nauðsynlegt væru að fengju fram að ganga til að auka megi viðskiptafrelsi og draga úr miðstýringu. Hitt atriðið, sagði hann að væri viðkvæmt mál en að það sneri að styrktarkerfi og verndartollum í íslenskum landbúnaði.

Sagði Bjarni að landbúnaðarkerfið þyrfti að vera í stöðugri þróun og að landbúnaðurinn búi að fjölmörgum tækifærum. Sagði hann mikilvægt að treysta grundvöll framleiðslunnar en vinda ofan af miðstýrðri verðstýringu og verndartollum. Hann sagði niðurgreiðslur til landbúnaðar of háar og að því þyrfti að breyta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert