Engu munaði að illa færi á þjóðveginum

mbl.is/Hjörtur

Tengivagn hlaðinn toghlerum valt rétt austan við Hjörleifshöfða, um 25 kílómetrum frá Vík í Mýrdal.

Mögulegt er að bíllinn sem dró tengivagninn hafi vikið út í kant til að hleypa bíl fram úr sér, og misst hann út í lausamöl.

Lögreglan segir ökumanninn hafa sýnt af sér mjög ábyrga hegðun og rétt viðbrögð þegar hann kveikti á viðvörunarljósum til að koma merkjum til farþegarútu með tæplega 40 farþega sem kom á eftir. Líklegt er að það hafi komið í veg fyrir að rútan hafi keyrt á toghlera, sem hefði sennilega valdið alvarlegu slysi.

Þjóðvegurinn var lokaður á milli 19 og 21 í kvöld vegna þessa. Ökumenn sem eru að fara þessa leið eru beðnir að sýna aðgát, því skemmdir urðu á veginum þegar óhappið varð. Vegagerðin er að störfum við viðgerð á svæðinu, en stórar vinnuvélar þurfti til að hreinsa veginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert