Gleymt útspil Íslands?

Eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar vinstriflokkanna í Svíþjóð eftir að hún tók við völdum í haust var að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki en það var formlega gert á fimmtudaginn. Það sama gerði Ísland í tíð síðustu ríkisstjórnar árið 2011. Erlendir fjölmiðlar hafa veitt ákvörðun sænsku ríkisstjórnarinnar mikla athygli síðan hún lá fyrir en allur gangur virðist á því hvort þeir muni eftir útspili Íslands í því sambandi.

Þannig sagði í frétt ísraelska dagblaðsins Haretz í fyrradag að Svíþjóð væri fyrsta ríkið í Evrópu til að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki. Ekkert var minnst á Ísland í því sambandi. Fréttavefur bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar NBC sagði hins vegar að Svíþjóð væri þriðja ríkið í Vestur-Evrópu á eftir Möltu og Kýpur til þess að viðurkenna sjálfstæði Palestínu. Ekkert var sem fyrr minnst á Ísland.

Bandaríska dagblaðið New York Times sagði ennfremur að fyrir ákvörðun Svía hafi Kýpur og Malta verið einu Vestur-Evrópuríkin sem viðurkennt hafi Palestínu sem sjálfstætt ríki. Hliðstæða frétt er að finna á fréttavefnum Huffington Post þar sem byggt er á frétt frá AP-fréttaveitunni. Þar segir að Svíþjóð sé þriðja vestur-evrópska ríkið til þess að viðurkenna Palestínu á eftir Möltu og Kýpur.

Fréttavefur tímaritsins TIME greinir hins vegar frá því að samtals hafi 134 ríki viðurkennt sjálfstæði Palestínu á undan Svíþjóð. Þar af hafi Ungverjaland, Pólland og Slóvenía gert það áður en þau hafi gengið í Evrópusambandið. Ekkert er sem fyrr minnst á Ísland í því sambandi.

Hins vegar greinir féttaveitan AFP frá því að samtals hafi 135 ríki viðurkennt sjálfstæði Palestínu að Svíum meðtöldum. Þar á meðal sjö ríki Evrópusambandsins í Austur- og Suður-Evrópu - Búlgaría, Kýpur, Tékkland, Ungverjaland, Malta, Pólland og Rúmenía. Þá sé Ísland eina ríkið í Vestur-Evrópu utan sambandsins sem hafi gert það.

Össur Skarphéðinsson var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur þegar ákveðið …
Össur Skarphéðinsson var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur þegar ákveðið var að Ísland viðurkenndi sjálfstæði Palestínu árið 2011. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert