Um 60 manns komu saman fyrir utan Hótel Reykjavík Natura í dag, þar sem flokksfundur Samfylkingarinnar fór fram. Söng hópurinn baráttusöng til flokksins og skoraði á hann að beita sér fyrir lausn í kjaradeilu tónlistarkennara og sveitarfélaganna.
„Það kom upp sú hugmynd að þetta gæti verið rétti vettvangurinn til að benda á það óréttlæti sem við teljum okkur vera beitt í þessum kjarasamningum á vettvangi þess flokks sem kallar sig jafnaðarmannaflokk Íslands,“ segir Sigrún Grendal, formaður félags tónlistakennara. „Menn bara mæltu sér mót og sungu hér fyrir hvern forystumanninn á fætur öðrum og við áttum ágætis spjall fyrir utan við þetta ágæta fólk.“
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar ásamt formanni flokksins, Árna Páli Árnasyni, komu út og ræddu við hópinn auk þess sem þeim var afhent ályktun frá Félagi tónlistarkennara.
Björk Vilhelmsdóttir, borgarstjórnarfulltrúi, segir verkfallið ekki geta gengið mikið lengur.
„Að þúsundir barna séu án tónlistarmenntunar og 500 kennarar séu í verkfalli er bara mjög alvarlegt mál,“ segir Björk „Þetta er mál sambands íslenskra sveitarfélaga og þar er samningsumboðið, ekki bara hjá Reykjavíkurborg. Við erum stórt afl og við viljum ná sömu samningsmarkmiðum og kennarar en eitthvað í viðræðunum er ekki að ganga upp og ég vona svo sannarlega að það verði fundin lausn á því.“
Deiluaðilar koma næst saman á þriðjudag nema sáttaboð komi fram. Sigrún segir félagið þegar hafa komið með margar tillögur sem ekki hafi hlotið náð fyrir eyrum samninganefndar sveitarfélaganna en að félagið gefist þó ekki upp.