Læknar á geðsviði Landspítalans leggja niður störf á miðnætti aðfaranótt miðvikudags. Göngudeild sviðsins verður lokuð í tvo sólarhring og þjónusta á móttökudeildum verður takmörkuð, eða svipuð og um helgar.
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum koma verkfallsaðgerðirnar vissulega illa við flesta eða alla sjúklinga en margir í hópi þeirra sem leita til geðsviðs spítalans eru viðkvæmir fyrir röskun sem þessari, sveiflum í þjónustu.
Ekki verður mikið um viðtöl á miðvikudag og á fimmtudag í þessari viku, komi til verkfallsaðgerðanna. Sálfræðingar og hjúkrunarfræðingar munu sinna sjúklingum og þá verður bráðaþjónusta veitt.
María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs, gerir ráð fyrir að starfsemin verði í hægagangi þá daga sem verkfallið stendur yfir.
„Við munum sinna bráðatilvikum og móttaka annara heilbrigðisstarfsmanna verður með hefðbundnum hætti en göngudeildir lækna lokaðar. Þetta er mjög bagalegt fyrir þennan viðkvæma sjúklingahóp og við vonum að deilan verði leyst áður en til þessara aðgerða kemur,“ segir María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs.