Vilhjálmur Egilsson sagði í þættinum Á sprengisandi í morgun að það hafi verið mistök að setja á gjaldeyrishöft. Þannig hefði krónan lækkað mun meira og að vandi lífeyrissjóðanna væri ekki sá sem hann er í dag.
Með höftunum hafi vandanum vandanum verið frestað og að krónan hafi ekki lækkað með þeim hætti sem eðlilegt hefði verið. Framkvæmd haftanna krefjist margra starfa, sem Vilhjálmur segir óþörf og skapi engin verðmæti fyrir þjóðarbúið. Með höftunum taki fólk fullt af skrýtnum ákvörðunum við fjárfestingar, sem ýti litlum aðilum úr landi vegna þess hversu margar undanþágur þurfi að fá hjá íslenskum stjórnvöldum. Lágt gengi hefði að hans mati ekki varað mjög lengi.
Hagvöxtur gæti að hans mati verið 0,25% til 0,5% meiri á hverju ári án hafta. Höftin hafi því kostað jafnmikið og hrunið.
Svavar Gestsson, annar viðmælandi Sigurjóns M. Egilssonar, benti á að lífskjaraskerðingin hefði orðið miklu meiri ef ekki hefði verið fyrir höftin. Landflóttinn hefði verið meiri. Hvort sá flótti hefði gengið til baka vildi hann ekki spá um.
Svavar tók þó undir með Vilhjálmi að gjaldeyrishöftin væru eitthvað sem þyrfti að afnema. Til þess þyrfti sterka pólitíska samstöðu, en viðraði hugleiðingar um að stjórnarflokkarnir gengju ekki í takt í þeim efnum.
Vilhjálmur var sannfærður um að ef höftin væru afnumin á morgun, þá myndi mjög lítið gerast. Hann efast um að fjármagnseigendur myndu flýja land í stórum stíl.