Lagaleg óvissa ríkir um olíuvinnslu á Íslandsmiðum

mbl.is/Ómar

Kristín Haraldsdóttir, forstöðumaður Auðlindaréttar Háskólans í Reykjavík, segir mörgum spurningum ósvarað hvað lagalega hlið olíuleitar og mögulegrar olíuvinnslu á Íslandsmiðum snertir en Kristín var meðal þeirra sem fór með erindi á opnum fundi Samfylkingarinnar um olíuleit á Íslandsmiðum sem haldinn var á Kornhlöðuloftinu við Bankastræti í morgun.

Kristín varpaði sérstaklega fram þeirri spurningu hver réttarleg staða íslenskra stjórnvalda væri ef til kæmi stefnubreyting varðandi olíuleit- og vinnslu og dró fram sjónarmið beggja aðila ef til slíkrar deilu kæmi, að olía finnist en íslensk stjórnvöld veiti ekki leyfi til vinnslu vegna umhverfissjónarmiða.

„Ef við gefum okkur það að það yrði stefnubreyting stjórnvalda og það væri áhugi fyrir því að hreinlega ganga frá þessu réttarsambandi þá blasir það við að það þurfi að spyrja sig að því hvort það sé heimilt,“ segir Kristín.

Almannahagsmunir eða eignaréttur

Hún segir að ríkir almannahagsmunir þurfi að ráða för ætli stjórnvöld í slíkar en segir að sama skapi að handhafi kolvetnisleyfis sé búinn að ráðast í ákveðna starfsemi, fjárfest bæði tíma og eignum, og njóti því á sambærilegan hátt verndar.

Hún telur að ef það komi fram nýjar upplýsingar sem ekki lágu fyrir þegar gengið var að samningum í upphafi hafi ríkið heimild til þess að skipta um skoðun en væri að öllum líkindum bótaskylt fyrir verðmætum en ekki fyrir leyfið sem slíkt.

„Hjá mannréttindadómstól Evrópu hefur eignarhugtakið líka verið túlkað rúmt. Þar erum við komin inn á mjög flókið mat á lögmætum væntingum,“ segir Sigrún og segir stóru spurninguna þá vera hvort leyfishafi hafi lögmætar væntingar til að starfa samkvæmt leyfinu þegar óvissan sem leyfið innifelur er þetta mikil.

„Má hann gera sér grein fyrir því að það geta orðið breytingar á þeim upplýsingum sem liggja til grundvallar sem geta leitt til þess að stjórnvöld hreinlega verða að skipta um skoðun til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar?“

Kristín lauk erindi sínu með því að benda á að það skipti máli að ríkið hafi lagt af stað með olíuleitina og skapað væntingar hjá þeim sem standa nú að olíuleit.

„Þá er verið að biðja viðkomandi um að koma og vinna þessa atvinnustarfsemi hér. Það getur skipt máli þegar það er verið að fara í þetta hagsmunamat og meta hvaða væntingar viðkomandi höfðu,“ segir Sigrún.

Fyrsta erindi fundarins var frá Kristni Einarssyni, ráðgjafa hjá Orkustofnun. Hann kom meðal annars inn á jákvæða og neikvæða þætti við olíuleitarsvæðið.

Engir árekstrar olíuvinnslu og botnfisksveiða

Meðal jákvæðra þátta er að ölduhæð á leitarsvæðinu er minni en á olíuvinnslusvæðum við vesturströnd Noregs, enginn hafís hefur verið þar frá því á sjöunda áratugnum og vægur hringstraumur er á svæðinu sem kemur í veg fyrir að mengun frá mögulegu slysi berist að ströndu fyrr en seint og um síðir, þá í útþynntu formi. Þá eru engir árekstrar við botnfisksveiðar.

Neikvæðu þættirnir eru þó að svæðið er nálægt ystu mörkum fyrir stórar þyrlur með varatank fyrir eldsneyti, það er allt að eins sólahrings sigling frá næstu þjónustuhöfn, þokusamt er á svæðinu sem getur haft áhrif á þyrluflug og á veturna er hætta á ísingu sem tefur fyrir og eykur líkur á slysum og óhöppum.

 Hann segir að Norðmenn telji 44% líkur á að ein eða fleiri olíulind finnist á svæðinu en áréttar að það sé full sannað að það sé olía fyrir hendi á þessu svæði.

Mikil orka á Íslandi, bæði í jörðu og í fólki

Jonas Gahr Störe, formaður norska Verkamannaflokksins ávarpaði fundinn en myndbandsupptaka var spiluð þar sem hann ræddi olíuleit Íslands. Þar fjallaði hann um að stjórnmálamenn beri mikla ábyrgð þar sem það sé þeirra að tryggja að olíuframleiðsla fullnægi kröfum um umhverfisvernd.

Jonas sagðist vilja fara varlega í að ráðleggja Íslendingum hvernig þeir ættu að hátta sínum málum við olíuleit þar sem hvert land þurfi að marka sína stefnu í orkumálum enda um veigamikið mál að ræða. Hann sagði að það væri mikil orka á íslandi, bæði í jörðinni og í fólkinu. Hann deildi með fundarmönnum stefnu Norðmanna í orkumálum hvað olíu varðar og kom inn á mikilvægi þess að vel sé farið með arðinn af auðlindinni svo að hann nýtist við samfélagslega uppbyggingu.

Fundurinn liður í stefnumótunarvinnu Samfylkingarinnar

Katrín Júlíusdóttir, alþingismaður, var fundarstjóri fundarins og var mjög ánægð með fundinn.

„Þessi fundur er liður í stefnumótunarvinnu samfylkingarinnar á þessu sviði. Það hafa komið upp skeptískari sjónarmið á síðustu árum gagnvart olíuvinnslu,“ segir Katrín og segir rétt að hlusta á slík sjónarmið þar sem margt sé til í þeim.

„Við eigum undir öllum kringumstæðum að stíga varlega til jarðar þegar kemur að auðlindunum okkar,“ segir Katrín.

Hún segir stefnumótunarvinnu Samfylkingarinnar í þessum málum einnig vera lið í því að ná utan um það með hvaða hætti Íslendingar ætli að leggja sitt af mörkum hvað varðar loftlagsmál og samdrátt í losun gróðurhúsloftategunda.

„Það eru sjónarmið sem segja að við eigum bara að horfa á eftirspurnarhliðina, draga úr eftirspurn og láta framboðið eiga sig. Það sjónarmið hefur verið ríkjandi í Evrópu. Svo eru sjónarmið að menn eigi að láta svona auðlindir liggja og það eru umhverfissjónarmiðin,“ segir Katrín.

„Það var aldrei tekið nein stefnumarkandi umræða um þetta innan flokksins þó umræðan hafi átt sér stað. Sérstök stefnumörkun um þetta mál átti sér aldrei stað og það má kannski segja að það sé vel og miður,“ segir Katrín.

„Það hefur enginn stjórnmálaflokkur svo ég viti markað sérstaka stefnu um þetta en þeir hafa allir komið að þessu með einum eða öðrum hætti,“ segir Katrín og bætir við að Samfylkingin ætli sér að verða sá flokkur sem hafi úthugsuðustu stefnuna í þessu máli.

mbl.is/Ómar
mbl.is/Ómar
mbl.is/Ómar
mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert