„Ég á bara aldrei von á neinu. Ég lifi lífinu væntingalaus svo allt sem gerist er frábært,“ segir Svavar Knútur Kristinsson einn forsprakka mótmælanna sem enn standa yfir á Austurvelli um hvort fjöldi mótmælenda hafi komið honum á óvart.
Nokkur þúsund manns hafa lagt leið sína á Austurvöll í kvöld. Tónlistarmenn hafa flutt tónlist fyrir hópinn auk þess sem fjöldasöngur á Öxar við ána fór fram. Barið er í girðingar og kveikt hefur verið á blysum en á mótmælunum er þó ekki fjandsamlegur bragur og er fjöldi barna og hunda viðstaddur ásamt fullorðnum mótmælendum.
„Það er kærleikur í loftinu,“ segir Svavar Knútur. „Þetta fólk stendur hvað með öðru. Þetta eru kurteisisleg mótmæli og það þýðir ekki að þetta sé ekki háalvarlegt. En við erum fyrst og fremst að sýna kurteisi, aga og samkennd.“
En hvaða skilaboð skyldi Svavar Knútur vilja að stjórnvöld taki frá þessum mótmælum?
„Gyrðið upp buxurnar,“ segir hann ákveðið. „Hættið að koma svona fram við fólk. Það er ógeðslega mikill dónaskapur í hvernig þeir tala og hvernig þeir koma fram, bæði við fjölmiðla og við almenning,“ segir Svavar og vitnar sérstaklega í viðbrögð Karls Garðarssonar og Brynjars Níelssonar við mótmælunum fyrr í dag.
„Ekkert nema dónaskapur, skætingur og kaldhæðni, í staðinn fyrir að segja; Ókei, þetta fólk hefur eitthvað að segja, eigum við kannski að koma og hlusta á það? En nei, þess í stað kemur einhverskonar „Geta þau ekki bara étið köku“ athugasemd.“