Heimilislaus síðan í sumar

Ragna og dætur hennar, Mia, 5 ára, og Jasmin Hildur, …
Ragna og dætur hennar, Mia, 5 ára, og Jasmin Hildur, 11 ára. mbl.is/Ómar Óskarsson

Einstæð tveggja barna móðir í Reykjavík sem hefur verið heimilislaus síðan í júní segir velferðarkerfið bregðast skyldum sínum gagnvart þeim sem höllum fæti standa.

Konan heitir Ragna Erlendsdóttir og á tvær dætur, 5 ára og 11 ára. Þriðja dóttir hennar, Ella Dís, lést síðastliðið sumar. Ella Dís var með sjaldgæfan sjúkdóm og lengi bundin við hjólastól og með öndunarvél.

Vegna veikinda Ellu Dísar þurfti Ragna að leggja út í ýmsan kostnað, meðal annars vegna læknisþjónustu erlendis. Sá kostnaður leiddi að lokum til þess að Ragna fór í gjaldþrot.

„Ég missti húsnæðið mitt og dóttur mína á sama tíma. Síðan get ég ekki fengið leigt á almennum leigumarkaði vegna gjaldþrots. Ég leitaði því til Félagsþjónustunnar og var sagt að ég fengi næstu lausu íbúð. Nú eru liðnir fjórir mánuðir en ekkert gerist.“

Leitaði til lækna erlendis

„Ég þurfti að taka lán vegna kostnaðar við að hjálpa dóttur minni. Hún var lengi án sjúkdómsgreiningar og ég þurfti að leita til útlanda til annarra lækna og þurfti að fjármagna það sjálf. Þannig að ég tók lán fyrir lækniskostnaði sem leiddi loks til gjaldþrots. Við börðumst í sex ár til að finna hvað var að henni,“ segir Ragna sem telur konu í sinni stöðu ekki eiga möguleika á leigumarkaði.

„Ég get ekki lagt fram bankaábyrgð. Það eru tíu manns um hverja leiguíbúð og það eru mjög fáir sem gefa konu eins og mér tækifæri.“

Ragna segir félagsþjónustuna hafa lofað húsnæði en ekki efnt það.

„Mér var lofað íbúð í síðustu viku í hverfi þar sem dætur mínar eru í skóla en það gengur ekki upp. Dætur mínar tvær voru í skóla þar sem systir þeirra lenti í slysi og lést. Ég þurfti því að skipta um skóla. Önnur dóttir mín gat ekki hugsað sér að fara í þennan skóla,“ segir Ragna sem er nú einhleyp en barnsfaðir hennar býr á Englandi. Hún hefur íhugað að flytja til Englands vegna erfiðra kjara hér.

„Ég á fjölskyldu þar líka. Ég er búin að reyna oft að fara út en kem alltaf aftur heim. Mér þykir mjög vænt um Ísland og vil taka þátt í uppbyggingu á Íslandi. Það er svolítið erfitt að lifa hér. En ég trúi því að við getum snúið þessu við og mig langar til að taka þátt í því. Velferðarkerfið er svo hart. Það er engan veginn að sinna sínum skyldum samkvæmt stjórnarskrá og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir Ragna.

Fékk íbúð

Ástríður Erlendsdóttir, einstæð fjögurra barna móðir sem rætt var við í Morgunblaðinu í síðustu viku, fékk íbúð á Ásbrú á vegum félagsþjónustunnar í Reykjanesbæ. Ástríður hefði ella verið heimilislaus en henni var gert að yfirgefa íbúð sína um mánaðamótin. Hún segir margt fólk í sömu stöðu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert