Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins eru sammála því mati stjórnar og stjórnenda RÚV að lengra verði ekki gengið í hagræðingu hjá Ríkisútvarpinu miðað við núverandi þjónustu enda hefur gríðarlega mikið verið hagrætt á síðustu árum og má m.a. benda á að starfsfólki hefur fækkað úr 340, árið 2008, í 235 árið 2014 samhliða því að þjónusta hefur verið skert.
„Þjóðin hefur sýnt það aftur og aftur að henni þykir vænt um Ríkisútvarpið, ber til þess traust og vill síst að þjónustan skerðist frekar. Mikið áhorf, mikil hlustun, mikið traust,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.
Stjórn starfsmannasamtakanna bendir á skyldur Ríkisútvarpsins í menningarmálum, gagnvart öryggis- og lýðræðishlutverkinu og ekki síst því að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. „Það hafa alls ekki allir efni á að kaupa áskrift að einkareknum sjónvarpsstöðvum.“
Samtökin benda á að ríkið hafi ávallt tekið hluta af útvarpsgjaldinu og nýtt í önnur verkefni en starfsemi Ríkisútvarpsins. „Forsvarsmenn RÚV hafa sett fram þá hógværu kröfu að útvarpsgjaldið skili sér óskert eins og til var ætlast. Fram hefur komið að fái RÚV allt útvarpsgjaldið dugi það til og ekki þurfi að skerða þjónustu frekar.
Stjórn starfsmannasamtakanna tekur undir þessa kröfu og skorar ennfremur á stjórnvöld að falla frá því að lækka útvarpsgjaldið enda fá rök sem mæla með lækkun á því. Útvarpsgjaldið á Íslandi er mjög svipað að krónutölu á hvern einstakling og þekkist á hinum Norðurlöndunum (hjá NRK, DR, YLE og SVT/SR), þrátt fyrir smæð markaðarins. Það er lægra hér en á Bretlandseyjum (hjá BBC). Óbreytt útvarpsgjald dugir til að standa undir dagskrá og bæta dreifikerfið, að því gefnu að RÚV fái gjaldið óskert. Því er ekki þörf á að hækka útvarpsgjaldið frá því sem nú er, það nægir að hafa útvarpsgjaldið óbreytt,“ segir í tilkynningunni.