Útvarpsgjaldið verði ekki lækkað

Útvarpshúsið í Efstaleiti.
Útvarpshúsið í Efstaleiti. mbl.is/Ómar Óskarsson

Starfs­manna­sam­tök Rík­is­út­varps­ins eru sam­mála því mati stjórn­ar og stjórn­enda RÚV að lengra verði ekki gengið í hagræðingu hjá Rík­is­út­varp­inu miðað við nú­ver­andi þjón­ustu enda hef­ur gríðarlega mikið verið hagrætt á síðustu árum og má m.a. benda á að starfs­fólki hef­ur fækkað úr 340, árið 2008, í 235 árið 2014 sam­hliða því að þjón­usta hef­ur verið skert.

„Þjóðin hef­ur sýnt það aft­ur og aft­ur að henni þykir vænt um Rík­is­út­varpið, ber til þess traust og vill síst að þjón­ust­an skerðist frek­ar. Mikið áhorf, mik­il hlust­un, mikið traust,“ seg­ir í til­kynn­ingu frá sam­tök­un­um.

Stjórn starfs­manna­sam­tak­anna bend­ir á skyld­ur Rík­is­út­varps­ins í menn­ing­ar­mál­um, gagn­vart ör­ygg­is- og lýðræðis­hlut­verkinu og ekki síst því að bjóða upp á fjöl­breytta dag­skrá. „Það hafa alls ekki all­ir efni á að kaupa áskrift að einkarekn­um sjón­varpsstöðvum.“

Sam­tök­in benda á að ríkið hafi ávallt tekið hluta af út­varps­gjald­inu og nýtt í önn­ur verk­efni en starf­semi Rík­is­út­varps­ins. „For­svars­menn RÚV hafa sett fram þá hóg­væru kröfu að út­varps­gjaldið skili sér óskert eins og til var ætl­ast. Fram hef­ur komið að fái RÚV allt út­varps­gjaldið dugi það til og ekki þurfi að skerða þjón­ustu frek­ar.

Stjórn starfs­manna­sam­tak­anna tek­ur und­ir þessa kröfu og skor­ar enn­frem­ur á stjórn­völd að falla frá því að lækka út­varps­gjaldið enda fá rök sem mæla með lækk­un á því. Útvarps­gjaldið á Íslandi er mjög svipað að krónu­tölu á hvern ein­stak­ling og þekk­ist á hinum Norður­lönd­un­um (hjá NRK, DR, YLE og SVT/​SR), þrátt fyr­ir smæð markaðar­ins. Það er lægra hér en á Bret­lands­eyj­um (hjá BBC). Óbreytt út­varps­gjald dug­ir til að standa undir dag­skrá og bæta dreifi­kerfið, að því gefnu að RÚV fái gjaldið óskert. Því er ekki þörf á að hækka út­varps­gjaldið frá því sem nú er, það næg­ir að hafa út­varps­gjaldið óbreytt,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert