Í dag er búið að fella niður 31 skurðaðgerð á Landspítalanum vegna verkfallsaðgerða. Skurðlæknar hófu verkfall á miðnætti og skarast það á við verkfall lækna á flæði- og aðgerðarsviði sem hófst í gær.
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum fellur fjöldi dag- og göngudeildakoma einnig niður á aðgerðasviði, skurðlækningasviði og flæðissviði en ekki eru til nákvæmar tölur að svo stöddu.
Bráðamóttaka, endurhæfingardeildir, öldrunardeildir og fleira heyrir undir flæðisvið spítalans en á aðgerðasviði er gjörgæslan, skurðstofur, speglanir, svæfing, blóðbanki og fleira.
Af 68 skurðlæknum í Skurðlæknafélagi Íslands eru 48 í verkfalli. Jafnframt eru 39 læknar í Læknafélagi Íslands af 55 í verkfalli á aðgerðasviði og 21 læknir af 70 á flæðisviði, flestir á öldrunarsviði. Alls eru því 108 læknar á Landspítalanum í verkfalli í dag.