Loftgæði mældust víða lítil fyrir viðkvæma um sexleytið í morgun, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Í Hveragerði mældist gildi brennisteinsdíoxíðs 1831 µg/m³ í morgun.
Í dag er búist við froststillu á gosstöðvunum. Við slíkar aðstæður eru auknar líkur á háum styrk mengunar. Einkum suðvestantil fyrripart dags.
Á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði voru gildin 739 µg/m³, í Dalssmára í Kópavogi 1468 µg/m³, í Norðlingaholti í Reykjavík 1116 µg/m³ og í Grafarvogi í Reykjavík 1772 µg/m³ um sexleytið í morgun.
Þegar gildin mælast frá 600 upp í 2.000 eru einkenni frá öndunarfærum líkleg hjá einstaklingum með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma en lítil vandamál ættu að vera hjá heilbrigðum.
Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Umhverfisstofnunar.
Samkvæmt spákorti Veðurstofu Íslands fyrir daginn í dag vegna mengunar frá eldgosinu í Holuhrauni má gera ráð fyrir að mengunin nái til allra landshluta. Myndin fylgir fréttinni.
Í dag er búist við froststillu á gosstöðvunum. Við slíkar aðstæður eru auknar líkur á háum styrk mengunar. Einkum suðvestantil fyrripart dags.
Þegar kemur fram á daginn má búast við sunnan og suðvestan andvara og eru því mestar líkur á mengun á svæðunum norðan og austan við eldstöðina, en gosmóða gerir þó væntanlega vart við sig víðar um land.
Á morgun berst gasmengun frá eldgosinu til norðurs og austurs. Gæti orðið vart við mengun frá Eyjafirði austur og austur á Firði.
Uppfært kl. 07:15
Klukkan 7 höfðu gildin ýmist farið hækkandi eða lækkandi. Í Hveragerði mældist gildi brennisteinsdíoxíðs 1186 µg/m³ sem er nokkru lægra en klukkan 7 í morgun.
Á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði voru gildin 7832 µg/m³, eða hærri en í morgun, í Dalssmára í Kópavogi 1459 µg/m³, svipað og í morgun, í Norðlingaholti í Reykjavík 1110 µg/m³, svipað og í morgun, og í Grafarvogi í Reykjavík 1770 µg/m³, einnig svipað og í morgun.
Á Gröf við Grundartanga mældust gildin 1044 µg/m³.