Borgarbúar geta gert ráð fyrir litlum loftgæðum í Reykjavík í dag annars vegar sökum gasmengunar frá Holuhrauni og hins vegar vegna svifryksmengunar (PM10), að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Styrkur brennisteinsdíoxíðs í loftgæðamælistöð í Völundarhúsum í Grafarvogi klukkan 9 í morgun var 1080 og 1087 á Grensásveg kl. 9 í morgun og styrkur svifryks var 90 míkrógrömm á rúmmetra, en þar eru heilsuverndarmörkin 50, að því er fram kemur í tilkynningu.
„Heilbrigðiseftirlitið vísar í töflu á heimasíðu Almannavarna - en þar kemur fram að ef styrkur fer yfir 600 míkrógrömm á rúmmetra er fólki ráðlagt að forðast áreynslu utandyra. Fólki sem er viðkvæmt í lungum er ráðlagt að fylgjast sérstaklega vel með loftgæðum.
Á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur - http://reykjavik.is/loftgaedi - má sjá kort yfir staðsetningu loftgæðamælistöðva í Reykjavík en þar er hægt að fylgjast með styrk brennisteinsdíoxíðs og annarra efna. Liturinn er grænn ef styrkurinn er undir heilsuverndarmörkum fyrir öll efni. Fari styrkur einhvers efnanna yfir heilsuverndarmörk breytist liturinn í gulan eða rauðan. Sýndur er hæsti styrkur efna á hverjum tíma,“ segir ennfremur.
Til að fá ítarlegri upplýsingar um loftgæði í Reykjavík má velja mælistað á kortinu. Styrk brennisteinsdíoxíðs (SO2) er hægt að skoða í loftgæðafarstöð II, sem nú er staðsett við Völundarhús 1 í Grafarvogi,og loftgæðamælistöðinni við Grensásveg.