Ummæli ráðherra ákveðin viðurkenning

„Við settum þetta upp sem sjö vikna aðgerðir og vissum ekkert hvaða stefnu svona mál færi ef það kæmi til verkfalls,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, aðspurður hvort að það komi honum á óvart hversu lengi verkfallsaðgerðir lækna hafa fengið að standa,en þær hófust fyrir rúmri viku. Jafnframt hófst verkfall skurðlækna á miðnætti og skarast því verkföllin.

„Ég geri fastlega ráð fyrir því að verkfall skurðlækna seti aukin þrýsting á viðræðurnar. Þetta er væntanlega til þess að allar skurðaðgerðir nema þær sem geta ekki beðið falla niður,“ segir Þorbjörn. 

Í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra að læknar hafi dregist aftur úr í launum samkvæmt ákveðnum mælikvörðum. Þorbjörn segir að ákveðin viðurkenning felist í því.

Jafnframt segir Þorbjörn að ummæli Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, um að framkvæmdir við nýjan Landspítala hefjist á kjörtímabilinu, séu góðar fréttir.

Aðspurður hvort að hann treysti yfirlýsingunum segist Þorbjörn ekki hafa ástæðu til þess að vantreysta þeim. „Ef þeir eru búnir að finna fjármögnunarleið þá er það ekkert útilokað. Við vitum hins vegar að þetta tekur mörg ár og hönnunarvinnu er ekkert lokið. Þetta er langt ferli og Læknafélagið hefur alltaf stutt framkvæmdina. Við höfum tvisvar samþykkt það á aðalfundi að nauðsynlegt væri að sameina spítalann á einum stað og þetta vonandi samræmist því.“

Fundað var í deilunni hjá ríkissáttasemjara í gær án árangurs og verður næsti fundur á fimmtudaginn. 

„Við náttúrulega vitum að það hefur ekki mikið gengið. Ég hefði kannski haldið að það væri hægt að þoka málinu lengra. Þetta kom inn á borð sáttasemjara í sumar og nú eru ansi margir mánuðir búnir að líða.“

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert