Fulltrúar innanríkisráðuneytisins komu á fund allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í morgun til að fræða nefndarmenn um vopnaeign lögreglunnar. Reglur sem gilda um meðferð lögreglu á vopnum eru bundnar trúnaði.
Að sögn Unnar Brár Konráðsdóttur, formanns nefndarinnar, var fundurinn ágætlega upplýsandi. Nefndarmenn hafi fengið upplýsingar um hvaða reglur gilda um meðferð og beitingu vopna hjá lögreglu sem ráðherra setti árið 1999.
„Þetta eru trúnaðarreglur sem eru ekki birtar,“ segir Unnur Brá spurð út í ákvæði reglnanna. Trúnaðar er einnig um það sem fer fram á lokuðum fundum þingnefnda.
„Það er búin að vera mikil umræða um þetta í fjölmiðlum og hinar og þessar upplýsingar sem við vildum bara fá að vita hvort að væru réttar eða ekki. Þetta var ágætlega upplýsandi fundur fyrir okkur,“ segir hún. Nefndin komi til með að halda áfram að fjalla um vopnaeign lögreglunnar.
Guðbjartur Hannesson, fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni, segir að reynt hafi verið að fá efni þessara reglna birtar með vísan til upplýsingalaga en því hafi alltaf verið hafnað. Sjálfur sjái hann ekki ástæðu til þess að halda þeim leyndum.
„Þetta eru reglur sem á bara að birta. Það er ekkert í þeim sem varðar öryggi lögreglunnar heldur bara almennt hvaða valdbeitingaráhöldum megi beita og svo framvegis,“ segir hann.
Fulltrúar Landhelgisgæslunnar komu einnig á fund nefndarinnar í morgun til að skýra frá hvernig tollafgreiðsla á skotvopnum sem berast til landsins fara fram. Byssurnar frá Noregi hafi komið með flugvél til Keflavíkurflugvallar og tollurinn hafi afgreitt farminn eins og venjulega. Tollskýrsla væri hins vegar ekki gerð nema hlutir væru teknir af svæðinu.
„Það vantar hins vegar heilmikið í þessa mynd í heild. Ég hef óskað eftir því munnlega að sett verði upp tímalína um hverjir hafi tekið ákvarðanir og hvernig. Alþingi hefur fengið misvísandi upplýsingar og það vantar ennþá mikið í púsluspilið,“ segir Guðbjartur.