„Amma er ekki tannlaus!“ er yfirskrift málþings Tannlæknafélagsins um tannheilsu aldraðra sem fram fer á morgun. Meðal þeirra sem flytja erindi á málþinginu er Sigríður Sigurðardóttir, fræðslustjóri hjúkrunarheimilanna Markar og Grundar, en erindi hennar titilinn „Er best að vera tannlaus?“
„Hjúkrunarfræðingar hafa oft talað um að það sé einfaldast að við látum bara rífa úr okkur allar tennurnar áður en við förum á hjúkrunarheimili,“ segir Sigríður. „Við erum að sjá eldri íbúa með tannpínu sem er erfitt að greina þar sem að eldra fólk á stundum erfitt með að segja hvar það finnur til eða hvort það finnur til.“
Hún segir umhirðu tanna almennt vera vel sinnt á hjúkrunarheimilum en þó ekki hjá þeim sem ekki leyfi starfsfólki að aðstoða sig. „Við erum oft í vandræðum með fólk sem við náum ekki samvinnu við, þá sérstaklega út af heilabilunarsjúkdómum. Þetta fer mikið eftir ástandi einstaklingsins,“ segir Sigríður.
„Ég ætla að vera með mínar. Það er allavega betra frá mínum bæjardyrum séð,“ segir hún um rannsóknarspurningu erindis hennar og hlær. „Ég held að ef að við fáum aðeins meiri samvinnu frá tannlæknum, við að fræða starfsfólkið og því um líkt, þá getur ástandið bara batnað.“
Sigríður segir að tannpína hafi aðeins nýlega ratað inn á tékklista fyrir starfsfólk í ummönnun yfir þá hluti sem gætu mögulega útskýrt vanlíðan einstaklings sem á erfitt með að tjá sig. „Þetta er eiginlega bara svo gjörbreyttur heimur á síðastliðnum 20 árum.“
Í október voru birtar tölur í Talnabrunni, fréttabréfi landlæknis, þar sem fram kemur að tannlausum sé að fækka og að fjölgun hafi orðið í hópi fullorðinna með allar eigin tennur. „Við sjáum þetta mjög greinilega. Ég myndi segja að við höfum verið að sjá töluverðan mun á síðustu tíu til fimmtán árum,“segir Sigríður
„Það er sífellt algengara að þeir sem að koma inn á hjúkrunarheimilin séu með sínar eigin tennur en fyrir 20 til 25 árum þá heyrði það frekar til undantekninga.“