„Hann er einfaldlega sprunginn“

Frá fundinum í Melaskóla.
Frá fundinum í Melaskóla. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Slæm sturtuaðstaða, of lítið mötuneyti og 68 ára gamlir stólar og borð voru meðal þeirra atriða sem komu til tals á upplýsingafundi um húsnæðismál og aðbúnað í Melaskóla í hádeginu í dag.

Fjölmargir foreldrar barna í skólanum mættu á fundinn sem haldinn var í hátíðarsal skólans. Einnig voru fulltrúar borgarinnar á staðnum.  

Dagný Annasdóttir, skólastjóri Melaskóla, hóf fundinn og greindi foreldrum frá því að skólayfirvöld hafi óskað eftir formlegri úttekt á skólanum þegar það kemur að aðbúnaði og húsnæðismálum.

Að sögn Dagnýjar er fyrsta forgangsatriðið stólar og borð en víða innan skólans eru þeir orðnir 68 ára gamlir og í slæmu ástandi. Jafnframt nefndi hún að málning í stofum séu orðnar „ansi fátæklegar.“ Þriðja forgangsatriðið er klósettmál en að sögn Dagnýjar eru þau orðin gömul og illa farin. „Það þarf að koma hlutunum í gang svo að eitthvað fari að gerast og óskuðum við því eftir formlegri úttekt á skólanum til að vita hvað er það sem er virkilega komið á tíma,“ sagði Dagný í dag.

Bætti hún við að það fjölgar stöðugt nemendum í Melaskóla og er hann nú orðinn stærsti skólinn í borginni. „Í vor fara héðan þrír sjöundu bekkir en inn koma fimm fyrstu bekkir. Þá vantar strax tvær stofur.“

Hefur verið skorið niður í viðhaldi

Agnar Guðlaugsson, deildarstjóri byggingadeildar umhverfis og skipulagssviðs borgarinnar tók næst til máls og útskýrði að hans deild sjái helst um viðhald fasteigna. Sagði hann foreldrum frá því að nú væri búið að taka út alla leikskóla í Vesturbænum og að grunnskólarnir séu næstir á dagskrá.

„Okkar markmið er að setja allt sem getur verið hættulegt í forgang,“ sagði Agnar og nefndi þar þéttingu á gluggum, eftirlit með leiktækjum og fleira.

„En við höfum ekki látið málað hér síðan 2008. Það hefur verið skorið niður í viðhaldi og við verðum að forgangsraða miðað við það,“ sagði Agnar og bætti við að vel væri búið að taka Melaskóla í gegn þegar það kemur að þéttingu og gluggum, en þeir eru allir nýjir í húsinu.

Nefndi Agnar einnig að árlega sé farið yfir alla skóla og leikskóla  þegar það kemur að pípulagningum. Hann var þó ekki viss hvort að salernin í Melaskola væri á þeim lista. Jafnframt er farið yfir allar raflagnir einu sinni á ári.

Aðspurður um fjármagn sagði Agnar að borgin veitti 900 milljónir á ári í viðhald og 800 milljónir í ýmis sérverkefni þegar það kemur að viðhaldi. Benti hann þó á að sú tala ætti við allar byggingar sem borgin rekur, eins og grunn- og leikskóla, bókasöfn, leikhús og fleira. Sagði hann síðar á fundinum að það fjármagn væri ekki nóg.

„Við reynum að raða þessu eftir forgangsröðun hvað er brýnast,“ sagði Agnar.

Á fundinum kölluðu margir foreldrar eftir heildarsýn á vandamál skólans, sem er fyrst og fremst plássleysi. Fannst mörgum eins og lítið væri um heildarlausnir, heldur aðeins „reddingar“.

„Við erum alltaf að laga skólann en við ætlum ekki að byggja við hann,“ sagði Agnar. „Við reynum að halda honum við og reyna að skaffa pening svo hann skemmist ekki.“

Skólann vantar aukið pláss

Daníel Benediktsson, verkefnastjóri fasteigna- og búnaðarmála hjá Skóla- og frístundarsviði Reykjavíkurborgar  tók síðan til máls og sagði að úttekt á Melaskóla verði tekin fyrir hjá skóla- og frístundarsviði í næstu viku og beiðni um bættan aðbúnað. Nefndi hann að nú væri jafnframt óskað eftir 3 stofum en sé ekki vitað hvar þær eiga að vera og hvort það sé önnur lausn í boði en að fjölga stofum.

Foreldrar í salnum nefndu aftur þá staðreynd að einfaldlega vantar Melaskóla aukið pláss. „Okkur vantar pláss það er alveg ljóst“ sagði Dagný.

„Það háir okkur að vera í Vesturbæ en hér er mjög erfitt að fá lóðir og stækka hús. Á þessum reit hér við Melaskóla höfum við ekkert stórt pláss enda erum við í mjög þétt byggðu hverfi,“ bætti Agnar við.

Eitt foreldri í salnum spurði hvort að hægt væri að setja fótinn niður og hætta að fjölga nemendum í skólanum. „Hann er einfaldlega sprunginn.“

Við því svaraði Daníel að það væri mjög erfitt að segja foreldrum nemenda það í hverfinu vegna grunnskólalaga.

„Þetta hefur ekkert með hrunið að gera en snýst um að breyta hugsuninni,“ sagði eitt foreldri í salnum stuttu síðar.

Ekki hægt að bæta endalaust við nemendum

„Það hefur komið fram í umræðunni meðal starfsmanna að húsnæðið og aðbúnaðurinn í húsinu sé komin á tíma. Foreldar og nemendur hafa líka fundið fyrir því og orð eru alltaf til alls fyrst og var gott að hafa þessar samræður á svona friðsællegum og góðum nótum. Það þarf að ræða málin og sjá hvað er raunhæft að gera," segir Dagný í samtali við mbl.is eftir fundinn. 

„Þess vegna kom skólaráð og húsnæðisnefndin með þessar niðurstöður að stólar og borð, málning og klósett væru þeir hlutir sem brýnast væri að laga þó það sé margt annað sem þarf einnig að gera. En það dugar ekki að sitja hérna og tuða, það þarf að gera eitthvað.“

Formaður foreldrafélags Melaskóla, Helga Rún Runólfsdóttir tók í sama streng. „Einhversstaðar þarf að byrja. Maður getur ekki fengið allt í einu en það er alveg ljóst að þetta á við fleiri skóla hér í Vesturbænum. Það er alveg gríðarleg fjölgun og það er ekki endalaust hægt að bæta við nemendum án þess að eitthvað gerist. Það verður að vera einhver heildarsýn eins og kom fram á fundinum.“ 

Helga Rún sagði að umræðan um bættan aðbúnað hafi verið í gangi í nokkur ár. „Við ákváðum að boða hér til fundar til að gefa foreldrum tækifæri á að viðra sínar spurningar. Við viljum að starfsmenn og nemendur vinnir hér við viðunandi aðstæður og þær eru það ekki núna.“

Bæði Dagný og Helga Rún sögðust vera ánægðar með hvernig fundurinn fór. „Fólk var mjög málefnalegt og lausnarmiðað og ég var mjög ánægð með svör fulltrúa borgarinnar,“ segir Dagný. 

„Núna er þetta komið í ákveðinn farveg og ég er full bjartsýni að saman getum við rætt bæði betra húsnæði og aðbúnað.“

Daníel Benediktsson og Dagný Annesdóttir á fundinum.
Daníel Benediktsson og Dagný Annesdóttir á fundinum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Agnar Guðlaugsson.
Agnar Guðlaugsson. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert