Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, er einn þeirra þjóðarleiðtoga sem bandaríska blaðið The Washington Post nefnir á lista sem það hefur tekið saman um leiðtoga sem hreinlega neiti að láta af embætti. Tveir aðrir evrópskir leiðtogar eru á listanum: Vladimír Pútín, forseti Rússlands og Alexander Lúkasjenkó forseti Hvíta-Rússlands.
Blaðið tók listann saman í kjölfar mótmæla í Búrkína Fasó í síðustu viku. Þar krafðist fólk þess að Blaise Compaoré, forseti landsins, hætti við áform sín um að framlengja valdatíð sína enn frekar en hann hefur gegnt embættinu frá árinu 1987, alls í 27 ár.
Á toppnum trónir Paul Biya sem hefur verið forsætisráðherra og síðar forseti Kamerún í alls rúmlega 14.300 daga. Það jafngildir tæpum fjörutíu árum. Leiðtogar annarra Afríkuríkja skipa sér í næstu sæti fyrir neðan en Ali Khamenei leiðtogi Íran er þaulsetnastur asískra leiðtoga. Hann hefur verið æðstiklerkur landsins frá 1989.
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, hefur verið langlífastur evrópskra leiðtoga á valdastóli en hann hefur gegnt embætti sínu í tuttugu ár.
Ólafur Ragnar er í 19. sæti listans yfir þaulsetnustu leiðtogana. Hann var fyrst kjörinn forseti árið 1996 og hefur því gegn embættinu í rúmlega 6.600 daga eða rúm 18 ár. Þar er hann á svipuðum slóðum og Denzil Douglas, forsætisráðherra St. Kitts og Nevis-eyja og Denis Sassou Nguesso, forseti lýðveldisins Kongó.
Listi Washington Post yfir leiðtogar sem neita að hætta