Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur ákveðið að leggja lögbann á að Síminn veiti aðgang að tilteknum vefsíðum. Þetta er gert með vísan til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur, í máli nr. K-8/2013. Síminn mun því loka fyrir aðgang að umræddum vefsíðum á morgun, fimmtudaginn 6. nóvember. Slóðir síðanna sem lokað verður á eru: www.deildu.net, www.deildu.com. www.iceland.pm, www.thepiratebav.se. www.thepiratebav.sx og www.thepiratebav.org.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum.
Í ákvörðun sýslumanns felst að Síminn loki á aðgang að sex slóðum að tveimur netsíðum sem bjóða höfundavarið efni án leyfis efniseigenda. Þetta eru annars vegar slóðir að síðunni Deildu og hins vegar að The Pirate Bay. Lögbannið setur sýslumaður að kröfu STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar.
Í tilkynningu Símans er tekið undir mikilvægi þess að höfundarréttur sé virtur og hefur fyrirtækið baráttunni gegn ólöglegu niðurhali leitast við að auka aðgengi netnotenda að löglegum leiðum að kvikmyndum og tónlist fyrir sanngjarnt verð. Má þar til að mynda nefna samstarf Símans við Spotify, sem er ein stærsta tónlistarveita heims og tugþúsundir landsmanna þekkja.
Síminn hefur einnig boðið í samstarfi við efnisveitur, eins og Skjáinn, kvikmyndir til leigu í Sjónvarpi Símans. Þá geta viðskiptavinir að Sjónvarpi Símans keypt áskrift að völdum þáttaröðum ABC Studios, eins og öllum fyrri þáttaröðum Grey´s Anatomy, Desperate Housewives, Scandal og Mistresses, frá 7. nóvember fyrir 590 krónur. Þar fá áskrifendur aðgang að 500 klukkutímum, eða rúmlega 20 dögum samfleytt, af sjónvarpsþáttum með íslenskum texta – á löglegan hátt.
Slóðirnar eru: www.deildu.net, www.deildu.com. www.iceland.pm, www.thepiratebav.se. www.thepiratebav.sx og www.thepiratebav.org.