Þrír lögreglubílar frá ríkislögreglustjóra eru á meðal þeirra um það bil tuttugu bíla sem seldir verða á bílauppboði Ríkiskaupa í næstu viku. Allur sérbúnaður hefur þó verið fjarlægður úr bílunum þannig að sírenurnar fylgja ekki með í kaupunum.
Uppboðið fer fram á þriðjudaginn 11. nóvember á milli klukkan 13-16. Auk ríkislögreglustjóra eru bílarnar meðal annars frá Vegagerðinni, , Isavia, Landgræðslunni, Vinnueftirlitinu og Fangelsismálastofnun. Ekki er þó um hefðbundið uppboð að ræða.
„Við erum ekki að bjóða bílana upp hæstbjóðanda við hamarshögg eins og sýslumaður gerir. Við fáum tilboðin bara inn og síðan er haft samband við hæstbjóðanda í hvern bíl svo framarlega sem hann nær lágmarksviðmiðunarverði viðkomandi stofnunar,“ segir Gísli Þór Gíslason, verkefnastjóri hjá Ríkiskaupum.
Bílarnir verða auglýstir á vefsíðu Ríkiskaupa og geta áhugasamir kaupendur skilað inn tilboðum með tölvupósti, faxi eða mætt á staðinn. Gísli Þór segir að endanlegur fjöldi bílanna sem verður boðinn upp liggi ekki enn fyrir en þeir séu í kringum tuttugu. Væntanlegir kaupendur þurfa að vera tilbúnir að leggja land undir fót til þess að fá þá afhenta. Þannig er einn til dæmis á Borðeyri og annar á Patreksfirði.
Lögreglubílarnir þrír eru af gerðinni Hyundai Santa Fe, Subaru Legacy og Skoda Octavia. Sírenurnar fylgja hins vegar ekki með, mörgum eflaust til mikilla vonbrigða.
„Það er allt tekið úr bílunum. Þegar bílar fara á sölu er búið að fjarlægja allan sérbúnað, hvort sem það eru lögreglubílar eða aðrir bílar,“ segir Gísli Þór.
Af öðrum áhugaverðum fararskjótum sem boðnir verða upp á þriðjudag er tæplega tuttugu ára gamall Dodge Ram 2005 '96-módel frá bandaríska herliðinu sem var á Keflavíkurflugvelli sem Isavia hefur sett á sölu. Gísli Þór segir hann líta prýðilega út og vera í góðu lagi miðað við aldur og fyrri störf.