Þjóðin ákveði framtíð flugvallarins

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks. Eggert Jóhannesson

Þingmenn Framsóknarflokks ætla að leggja fram frumvarp um að allir landsmenn fái að taka ákvörðun um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Þetta sagði Höskuldur Þórhallsson, þingmaður flokksins, á Alþingi nú fyrir stundu. Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hvetur til þess að skipulagsvald Reykjavíkurborgar verði skert.

Höskuldur sagðist fordæma samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í dag um að auka byggingarmagn á Hlíðarendasvæðinu. Sérfræðingar hafi bent á að það rýri notagildi flugvallarins verulega. Þannig væri meðal annars ekki hægt að nota svonefnda „neyðarbraut“.

„Við í Framsóknarflokknum höfum verið samhljóma um að við viljum að öll þjóðin fái að taka ákvörðun um þetta mikilvæga mál. Við ætlum að leggja fram frumvarp þess efnis á morgun væntanlega,“ sagði Höskuldur undir liðnum störf þingsins.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hvatti jafnframt til þess að skipulagsvald Reykjavíkurborgar yrði skert svo að flugvöllurinn í Vatnsmýri hverfi ekki þaðan. Gagnrýndi hann borgaryfirvöld harðlega fyrir áform sín um að flugvöllurinn fari.

„Ég held, virðulegi forseti, að það verði að fara að skerða skipulagsvald Reykjavíkurborgar á þessu flugvallarstæði. Við verðum að grípa hér inn í ef við ætlum ekki að sitja upp með það að einn daginn snúist umræðan ekki um það hvort að starfsemin verði flutt úr Reykjavík heldur hvenær hún verði flutt,“ sagði Jón og benti á að flugvallarmálin yrðu rædd á opnum sameiginlegum fundi atvinnuvega- og umhverfis- og samgöngunefnda á morgun.

Nokkuð snarpar umræður áttu sér stað um málið og héldu þær áfram undir liðnum fundarstjórn forseta. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, bað þingmenn ítrekað um að halda sig við þingsköp þar sem þessum lið væri ekki ætlað að vera framlenging á umræðum um störf þingsins. Benti hann þingmönnum á að ekki færri en þrjár beiðnir um umræður sem tengdust flugvellinum og innanlandsfluginu lægju fyrir þannig að þeim gæfust næg tækifæri til að úttala sig um málefnið á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert