WHO sendi bréf vegna áfengisfrumvarps

Vínbúðin.
Vínbúðin. mbl.is/Valdís

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sent embætti landlæknis bréf og lýst yfir áhyggjum af mögulegum afleiðingum sem fylgja frumvarpi þingmanns Sjálfstæðisflokksins um að færa smásölu áfengis úr Vínbúðum ÁTVR og í matvöruverslanir.

Þetta kemur fram í umsögn landlæknis um frumvarpið. Í umsöginni segir einnig að í bréfi WHO, sem sent var 23. október sl., sé því lýst að verði frumvarpið að lögum muni áfengisneysla mjög líklega aukast, sérstaklega meðal ungs fólks, viðkvæmra hópa og þeirra sem drekka mikið. Stjórnmálamenn eru þá hvattir til að taka tillit til heilsufars- og félagslegra þátta áður en þeir taka ákvörðun um þær breytingar sem frumvarpið felur í sér.

Þá segir landlæknir að mikilvægt sé að samhljómur sé í löggjöf frá Alþingi og stefnu stjórnvalda um málefni sem varða lýðheilsu. „Verði ofangreint frumvarp að lögum væri það í beinni andstöðu við þessa metnaðarfullu og mikilvægu stefnumótun ríkisstjórnarinnar um að efla lýðheilsu í landinu.“

Verði að gera ráð fyrir sérverslunum

Félag atvinnurekenda sendi hefur einnig sent inn umsögn um frumvarpið. Í henni er þeirri afstöðu sem fram kemur í frumvarpinu og greinargerð þess fagnað. „Alltof lengi hefur verið litið á það sem áhrifaríka áfengisstefnu að takmarka alla notkun á áfengi með því að þrengja að eðlilegu viðskipta- og markaðsumhverfi í þessum geira, fremur en að takast beint á við misnotkunina, sem vissulega er alvarlegt vandamál hjá afmörkuðum hópi.“

Hins vegar telur Félag atvinnurekenda frumvarpið ganga of skammt. Á því séu alvarlegir annmarkar og á sumum sviðum muni samþykkt þess þýða afturför hvað varðar aðgengi neytenda að þeirri neysluvöru sem áfengi er.

Meðal annars sé mjög óljóst af ákvæðum frumvarpsins hvort gert sé ráð fyrir sérverslunum með áfengi, enda séu þær hvergi nefndar. „Það er þó algjör forsenda þess að áfram verði breitt vöruúrval og góð þjónusta við neytendur að sérverslanir fái að þrífast við hlið stórmarkaða, sem aldrei munu bjóða jafnbreitt vöruúrval eða jafnmikla sérfræðiráðgjöf við viðskiptavini og stærstu verslanir ÁTVR gera í dag.“

Félagið leggur því til að frumvarpið verði ekki samþykkt óbreytt heldur að málið verði tekið upp að nýju í heild og horft til mun fleiri þátta en þegar frumvarpið var samið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert