„Ég fékk þessa hugmynd eftir að ég fór til Bandaríkjanna á ráðstefnu í sumar. Hún var haldin á vegum bandaríska sendiráðsins hér á Íslandi. Einn liður í ráðstefnunni var ákveðið samfélagsverkefni og mælt var með því að við myndum vinna það þegar við værum komin aftur heim. Þá datt mér í hug að verkefnið mitt gæti verið að halda ráðstefnu”, segir Unnur Lárusdóttir, en hún skipuleggur nú ráðstefnu um styttingu náms til stúdentsprófs.
Ráðstefnan verður haldin 19. nóvember í Norðurljósasal Hörpu og hefst hún klukkan 17. Hér má sjá viðburðinn á Facebook.
Unnur segir að stytting náms til stúdentsprófs hafi mjög mikil áhrif á nemendur og að fram til þessa hafi ekki verið vettvangur fyrir þá til þess að ræða málin opinberlega og leita til fagaðila um þetta málefni.
„Nemendur í dag vita ekki við hverju má búast eða hvað muni breytast, hvernig sviðin innan háskólans virka, hvort það verða fleiri inntökupróf og þar fram eftir götunum. Það eru mjög skiptar skoðanir um þetta og svo mikið af mýtum varðandi styttinguna. Fólk er oft ekki nógu upplýst og er þá að taka afstöðu án þess að vita nóg um málefnið. Ég var til dæmis búin að mynda mér skoðun áður en ég var búin að kynna mér málefnið nógu vel. Eftir að hafa kynnt mér málefnið betur þá hefur afstaða mín breyst og eftir ráðstefnuna mun ég endanlega vita hvort ég sé með eða á móti styttingunni,“ segir Unnur sem er nemandi á öðru ári í Verslunarskóla Íslands.
Unnur stendur ein að skipulagi ráðstefnunnar og segir það mikla vinnu. „Þetta er mikil vinna en alveg þess virði. Þegar fólk kemst að því að ég er ein að sjá um þetta og aðeins 17 ára gömul verður það mjög hissa. “
Helstu styrktaraðilar ráðstefnunnar eru háskólinn sem Unnur var nemandi við í Bandaríkjunum í sumar, Purude University, Verslunarskóli Íslands, Hreinsitækni EHF og prentsmiðjan Viðey. Rakel Tómasdóttir, nemi í grafískri hönnun, setti upp dagskránna og plakatið.
„Á ráðstefnunni verður fjallað vítt og breytt um styttinguna og hvaða áhrif hún mun hafa. Það verða aðilar frá háskólunum sem verða með ræðu og skólastjóri Verslunarskólans. Einnig munu nemendur fara með erindi. Breytingin á Verslunarskólanum verður tekin sem dæmi, bæði breytingin á kerfinu og á félagslífinu, svo að nemendur geti gert sér grein fyrir því hvernig styttingin getur haft mismunandi áhrif á mismunandi skóla“ segir Unnur. Hún segist jafnframt hafa fengið ótrúlega góð viðbrögð við ráðstefnunni.
„Kennarar og eldra fólk er yfirleitt hissa að ég sé komin svona langt með þetta verkefni og að ég hafi í raun hrint þessu í framkvæmd. Ég held að það sé samt bara ávísun á það hvað ungdómurinn á Íslandi er framtakssamur. Margir vilja hafa áhrif og sjá breytingar alveg óháð aldri.“
Ræðumenn á ráðstefnunni verða Ingi Ólafsson, skólastjóri Verslunarskóla Íslands, Sigrún Dís Hauksdóttir, forseti NFVÍ, Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Hafdís Ingvarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið HÍ og Eva Brá Önnudóttur, nemi í sálfræði við HÍ.
„Mér fannst mikilvægt að nefna áhrifin á háskólana. Á Íslandi hefur þetta verið þannig að flestir skólar eru með 4 ára kerfi en það er mismunandi á hve mörgum árum fólk er að útskrifast. Þá eru mismunandi einstaklingar að koma inn í háskólana á mismunandi tímum sem gerir það að verkum að námið þarf að vera fjölbreytt“ segir Unnur.
„Ég vildi heyra í Ara með áhrifin á háskólann í heild sinni, hvort þetta þýði fleiri inntökupróf, aukið brottfall, hvort stytting muni hafa góð eða slæm áhrif á háskólasamfélagið og svo framvegis. Mér fannst hann sérstaklega góður kandídat.“
Jafnframt mun Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, flytja opnunarávarp á ráðstefnunni. Unnur segir að það hafi gengið vel að fá hann til liðs við sig. „Illugi var einn af þeim ræðumönnunum sem ég setti fyrst niður á blað. Það hefur mikil umræða hefur spunnist í kringum styttinguna og þetta er í rauninni kjörið tækifæri fyrir aðila úr ríkisstjórninni að koma og segja þeim einstaklingum sem styttingin mun hafa áhrif á hvernig hún verður í raun og veru. Það getur ekki verið að þetta sé gert að ástæðulausu, enda búið að vera á áætlunum ríkisstjórnarinnar í mörg ár. En hann tók vel í þetta og ég hlakka til að sjá hann.”