„Læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk á spítalanum unnu kraftaverk þegar þeir í afar langri aðgerð á laugardegi framkvæmdu flókna aðgerð á manninum mínum. Þetta blessaða fólk er að vinna við aðstæður sem varla þekkjast í hinum vestræna heimi.“
Svona kemst Ragnheiður Davíðsdóttir að orði á Facebook í dag en þar tjáir hún sig m.a. um kjaradeilu lækna. Segir hún frá því að eiginmaður hennar hafi farið í bráðaaðgerð vegna kransæðastíflu um helgina og barist fyrir lífi sínu á gjörgæslu Landspítalans. Er hann nú kominn á almenna deild.
Í færslu sinni hrósar Ragnheiður heilbrigðisstarfsfólki á spítalanum.
„Starfsfólkið lagði sig allt fram um að hjúkra honum og ekki síður sinna okkur, aðstandendum, á þann hátt að aðdáunarvert er. Á meðan Jói minn lá þarna og barðist við að halda lífi, var það einnig að sinna yfirfullri deild af lífshættulega veiku fólki. Ég upplifði það m.a. að hjúkrunarfólkið komst stundum ekki í mat vegna anna. Aldrei bar skugga á fagmennsku þeirra eða nærgætni í samskiptum við Jóa minn og okkur aðstandendur.
Þau eru hetjur sem eiga svo sannarlega skilið að stjórnvöld virði kröfur þeirra um hærri laun. Ef ég get af veikum mætti endurgoldið þeim það afrek sem þau unnu með Jóa minn, mun ég leggja mig alla fram við að styðja baráttu þeirra fyrir nýjum spítala og síðast en ekki síst, mannsæmandi launum. Ég er í senn hrærð og þakklát en um leið óendanlega reið vegna skilningsleysis stjórnvalda,“ segir í færslunni.