Alþingi taki yfir Vatnsmýrina

Framsóknarmenn í Alþingishúsinu
Framsóknarmenn í Alþingishúsinu mbl.is/Ómar Óskarsson

Fimmtán þingmenn Framsóknarflokks hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli. Markmiðið er að tryggja ábyrgð Alþingis á gerð skipulagsáætlana og þátttöku í veitingu framkvæmdaleyfa og byggingarleyfa á Reykjavíkurflugvelli.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknaflokksins, er flutningsmaður frumvarpsins og hafði boðað að það yrði lagt fram. Í greinargerð með frumvarpinu segir að Reykjavíkurflugvöllur sé sameign allrar þjóðarinnar og þegar komi að skipulagi á lóðinni undir honum fari ekki alltaf saman hagsmunir Alþingis, Reykjavíkur og landsbyggðarinnar.

„Þótt Reykjavíkurflugvöllur sé staðsettur í miðborg Reykjavíkur er hann eftir sem áður flugvöllur þjóðarinnar allrar. Til þess stendur pólitískur vilji að Alþingi hafi áhrif á skipulag og mannvirkjagerð á Reykjavíkurflugvelli. Með frumvarpi þessu er að því stefnt að slík áhrif verði virk en um leið sé gætt að því að Reykjavíkurborg, sem fer með hið lögbundna skipulagsvald Reykjavíkur, sé jafnsett þinginu við mótun og gerð skipulags á svæðinu,“ segir í greinargerðinni.

Þá segir einnig að flutningsmenn telji nauðsynlegt að standa vörð um það fjölþætta og þýðingarmikla hlutverk sem Reykjavíkurflugvöllur hefur með því að festa staðsetningu hans í sessi á tryggan hátt til hagsbóta fyrir landsmenn alla.

Þeir þingmenn sem standa að frumvarpinu eru: Höskuldur Þórhallsson, Ásmundur Einar Daðason, Elsa Lára Arnardóttir, Frosti Sigurjónsson, Haraldur Einarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Karl Garðarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Sigrún Magnúsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þórunn Egilsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert