45 manns sem gangast reglulega undir lyfjameðferð við aldurstengdri hrörnun í augnbotnum, misstu af lyfjagjöf í dag vegna verkfalls lækna. Markmið meðferðarinnar er að hindra sjóntap.
Fólkið sem þarf nú að bíða lengur eftir lyfjagjöfinni er kvíðið og áhyggjufullt, enda hrætt við að missa sjónina og tapa þannig lífsgæðum. Ef of langur tími líður á milli lyfjagjafa getur það valdið óafturkræfu sjóntapi.
Inndæling lyfja í auga sem meðferð við augnbotnahrörnun hófst hér á landi árið 2008. Í hverri viku koma 80 til 100 sjúklingar á augnlækningadeild Landspítalans til að fá lyf sem dælt er í glerhlaup augans í von um að hindra sjóntap.
Aldursbundin augnbotnahrörnun er algengasta orsök lélegrar sjónar hjá fólki yfir sextugu. Hún veldur nánast aldrei algjöru sjóntapi því að fólk heldur hliðarsjón nema ef um fleiri sjúkdóma er að ræða eins og gláku.
Virkni lyfsins Avastin uppgötvaðist fyrir tilviljun en það er krabbameinslyf sem virkar vel á augun í þessum tilvikum. Ef fólk fær lyfið ekki á það á hættu að tapa sjón og getur sjóntapið verið óafturkræft.
Um 370 manns gangast nú undir meðferðina hér á landi í hverjum mánuði en hún fer þannig fram að sjúklingarnir koma á spítalann einu sinni í mánuði í þrjá mánuði og fá lyfið. Eftir það er staðan metin með sneiðmynd af auga og sjónmælingu.
Eðli málsins samkvæmt eru sjúklingarnir margir hverjir komnir á efri ár þar sem um er að ræða aldurstengda hrörnun og segir Dögg Harðardóttir, deildarstjóri á dag- og göngudeild augnlækninga, að margir sjúklinganna berjist til dæmis við að halda bílprófinu eða geta búið áfram á eigin heimili og sinnt athöfnum daglegs lífs.
„Það skiptir öllu máli að fólk fái þetta lyf,“ segir Dögg. Margir sjúklingar hafa haft samband við spítalann og eru áhyggjufullir og kvíðnir vegna frestunar lyfjameðferðarinnar.
Samkvæmt upplýsingum frá spítalanum er sumum sjúklingunum mikið niðri fyrir þegar þeir hafa samband við spítalann, gráta jafnvel, enda verulega áhyggjufullir yfir því að missa hugsanlega sjónina þar sem þeir fá ekki meðferð eins fljótt og auðið er.
Dögg segir að augndeildin gefi sjúklingum þó tíma eins fljótt og auðið er til að gæta fyllsta öryggis í meðferð þeirra
Þó að aðgerðin bæti í mörgum tilvikum lífsgæði fólksins telst hún ekki til bráðra og lífsnauðsynlegra aðgerða sem gerðar eru þrátt fyrir að verkfall standi yfir.
Allar lyfjameðferðirnar sem áttu að fara fram í dag frestast og munu aðrar færast til og veldur þetta gríðarlegum ótta og kvíða hjá hópnum, samkvæmt upplýsingum frá spítalanum.
Öllum sjúklingum er gefinn annar tími, en verkfallið hefur keðjuverkandi áhrif næstu vikur. Mánuði eftir síðustu sprautuna fer fólk í myndatöku sem leiðir í ljós hvort fólk þurfi áframhaldandi meðferð, hvort hún hafi skilað árangri.
„Sem háskólasjúkrahús viljum við veita sem allra bestu þjónustu í samræmi við niðurstöður nýrra rannsókna, við viljum vera samkeppnishæf á alþjóðavísu,“ segir Dögg.