Samhengi ummæla skiptir miklu máli þegar ummælin eru metin í meiðyrðamálum. Dómstólum er vorkunn að þurfa að greina á milli þess hvort ummæli eru gildisdómar eða staðhæfingar um staðreyndir í meiðyrðamálum.
Þetta kom fram í máli Halldóru Þorsteinsdóttur, aðstoðarmanns hæstaréttardómara, á hádegisverðarfundi Lögfræðingafélags Íslands í dag. Fundurinn bar yfirskriftina Tjáningarfrelsi fjölmiðla og æruvernd í ljósi nýfallins dóms Mannréttindadómstóls Evrópu.
Þann 21. október sl. vann Erla Hlynsdóttir blaðamaður sitt annað mál gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Taldi dómurinn að íslenska ríkið hefði brotið gegn 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um tjáningarfrelsið.
Halldóra sagði að reglan um sannindi ummæla hafi verið notuð í dómaframkvæmd hér á landi og erlendis. Reglan gangi út að mönnum verður ekki refsað fyrir sönn ummæli, menn verði ekki dregnir til ábyrgðar fyrir orð sem eru ekki á rökum reist.
Sagði hún einnig að aukið tjáningarfrelsi síðustu ára og áratuga hafa leitt til þess að nú sé talið rétt að víkja í meira mæli en áður frá þessari reglu og eigi það meðal annars við þegar ummæli teljist liður í þjóðfélagsumræðu. Það eigi við þegar um er ræða sjónarmið um góða trú og eins þegar um er að ræða gildisdóma en í öllum þessum tilvikum er talið rétt að slaka á kröfunni um sönnun ummæla.
Halldóra sagði að landlagið í meiðyrðamálum hefði breyst nokkuð síðustu áratugi. Ummæli sem áður hefðu talist ærumeiðandi og voru ómerkt væru nú talin vera gildisdómur. Um 198 hafi verið farið að játa mönnum frelsi til að setja fram gildisdóma í opinberri umræðu en áður hafði orð eins og „mannvitsbrekka“ verið talið ærumeiðandi.
Halldóra sagði að þróunin ætti rætur sínar að rekja til Mannréttindadómstóls Evrópu en hann hefði slegið því föstu að menn verði ekki dregnir til ábyrgðar fyrir ummæli sem fela í sér gildisdóma eða skoðanir manna.
„Gildisdómar eru skoðanir,“ sagði Halldóra og útskýrði hugtakið nánar. Benti hún á að ef hún segir að sér þætti yfirmaður sinn leiðinlegur eða henni þætti tiltekið málverk ljótt, væri það gildisdómur, skoðun sem ekki væri hægt að skera úr um fyrir dómi.
Staðhæfing um staðreynd væri aftur á móti fullyrðing um eitthvað tiltekið sem fallið er til sönnunar. Nefndi hún sem dæmi ummæli um að manni hefði verið sagt upp starfi eða framið bankarán, það væri fullyrðing sem hægt væri að leggja dóm á.
Sagði Halldóra að Mannréttindadómstóllinn skilgreindi gildisdóma með mjög rúmum hætti. Hafi ummælin pólitíska skírskotun, eru þau innlegg í þjóðfélagsumræðu og virðist dómstólinn öllu jöfnu vilja flokka það sem gildisdóm.
Þegar dómstólar fást við meiðyrðamál skiptir samhengi miklu máli og nefndi Halldóra dóm Mannréttindadómstólsins í máli Erlu sem féll í síðasta mánuði sem dæmi.
„Ef ummælin eru viðhöfð í grein þá eru ummælin, þessi ætluðu ærumeiðandi ummæli, ekki gripin úr samhengi heldur eru þau skoðuð með hliðsjón af greininni allri og þá eftir aðdraganda með skrifunum,“ sagði Halldóra.
Einnig er horf til þess gegn hverjum ummælin, hver viðhafði ummælin, hvort eitthvað gerist á undan sem geri það að verkum að sá sem viðhefur ummælin hafi ríkari ástæðu en ella til að setja ummælin fram. Sagði Halldóra að þetta væri alltaf skoðað í samhengi, ekki væri horft til bókstaflegu merkingu ummælanna.
Í lokin fór Halldóra betur yfir dóm Erlu, annan af þremur sem teknir verða til umfjöllunar hjá Mannréttindadómstólnum. Þar snerist málið um ummæli viðmælanda hennar í helgarblaði DV árið 2007 um eiginkonu Guðmundar Jónssonar sem rak meðferðarheimilið Byrgið á þessum tíma.
Sagði Halldóra að þótt hefði sýnt að eiginkonan hefði tekið þátt í brotunum þó að hún hefði ekki fengið dóm. Sagði hún einnig að Hæstiréttur hefði horft á ummælin sem eiginkonan vildi að yrðu ómerkt lið fyrir lið, ekki í samhengi.
Halldóra sagði að Mannréttindadómstóllinn hefði gengið mjög langt í að reyna að sýna fram á að ummælin hefðu falið í sér gildisdóm, ef til vill lengra en áður. Orðin „veitt fyrir hann“, sem voru meðal þeirra sem eiginkonan vildi fá ómerkt. Benti dómstólinn meðal annars á að viðurkennt hefði verið í málinu að konan hefði verið þátttakandi í málinu á einhvern hátt.
Málið var umtalað í samfélaginu og mikið var fjallað um það í fjölmiðlum. Dómstólinn komst að þeirri niðurstöður að líta yrði svo á að um gildisdóm hefði verið að ræða, ekki staðhæfingu um staðreynd.
Halldóra sagði að lokum að ljóst væri að gildisdómar njóti ríkari verndar en staðhæfingar um staðreyndir. Sagði hún að líta þurfi til samhengis ummæla, hver viðhafði ummælin og til þess um hvern ummælin voru höfð og jafnvel hvort málið eigi erindi til almennings. Þetta er heildarmat og dómstólum er í raun vorkunn að þurfa að greina þarna á milli, sagði Halldóra.
Fréttir mbl.is um málið:
Erla Hlyns: Gríðarlegar gleðifréttir
Dæmdir fyrir að vinna vinnuna sína