„Á síðustu árum höfum við í auknum mæli verið að sinna flutningi látinna ferðamanna til sinna heimalanda og flutt út fjölda líka og duftkera.“
Þetta segir Elín Sigrún Jónsdóttir lögfræðingur, sem jafnframt er framkvæmdastjóri Útfararstofu kirkjugarðanna, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Fylgni er á milli fjölgunar ferðamanna og aukinnar dánartíðni erlendra ferðamanna sem síðan þarf að flytja úr landi. Í ár verða 40-50 lík erlendra ferðamanna flutt úr landi, að sögn Elínar.
„Í sumar var þetta sérstaklega algengt og það er alveg gríðarleg vinna sem fylgir þessu. Flutningur líks eða duftkers úr landi kallar á samskipti útfararstofunnar við fjölmarga aðila og embætti, til dæmis lækni sem gefur út dánarvottorð á ensku, sýslumann, þjóðskrá, sendiráð, sjúkrahús, embætti landlæknis, héraðssóttvarnalækni, lögreglu og bálstofu,“ segir hún.