Komast að gjörólíkri niðurstöðu

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor.
Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor. Kristinn Ingvarsson

Tveir fyrrverandi fulltrúar í stjórnlagaráði, sem var úthlutað því verkefni árið 2011 af þáverandi ríkisstjórn að semja drög að nýrri stjórnarskrá, hafa að undanförnu komist að gjörólíkri niðurstöðu um það hvers vegna vinna ráðsins hafi ekki skilað tilætluðum árangri. Þannig telur annar þeirra að stjórnlagaráð hafi gert mistök með því að hafa ekki samráð við Alþingi þegar drögin voru sett saman á meðan hinn telur að halda þurfi stjórnmálamönnum sem lengst frá slíkri vinnu.

Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi fulltrúi í stjórnlagaráði, segir í grein sem birtist á vefsíðu bresku rannsóknamiðstöðvarinnar Democratic Audit 28. október að stjórnarskrármálið hafi siglt í strand vegna afskipta stjórnmálamanna. Stjórnmálaflokkum sé ekki treystandi fyrir því að koma að slíkri vinnu enda hafi þeir þá tilhneigingu að þjóna hlutverki hagsmunabandalaga fyrir stjórnmálamenn eða aðra hagsmunahópa. „Fyrir þær sakir ætti ekki að hleypa stjórnmálamönnum nálægt stjórnarskrárferlinu þar sem hætta er á að þeir reyni að taka það yfir í eigin þágu.“

Byggja hefði þurft ferlið á samtali

Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst og fyrrverandi fulltrúi í stjórnlagaráði, sagði hins vegar í útvarpsþættinum Sprengisandi á sunnudaginn að ráðið hefði gert mistök með að hafa ekki samráð við Alþingi. Þegar stjórnlagaráð hefði skilað af sér drögum að nýrri stjórnarskrá hafi þingmenn tekið við boltanum en ekkert vitað hvað þeir ætluðu að gera við þau auk þess sem þeir hafi staðið í innbyrðis deilum um málið. Þannig hefði þurft að byggja inn í ferli málsins meira samtal.

Þetta sagði Eiríkur að mætti meðal annars læra af reynslu Íra. Þar hefði þriðjungur fulltrúa á stjórnlagaþingi þeirra verið starfandi þingmenn. Þegar stjórnlagaþingið hefði skilað af sér drögum hafi umræddir þingmenn litið á það sem sitt hlutverk að koma því áfram. „Þegar stjórnlagaráð skilaði af sér hérna þá voru engir slíkir bandamenn á þinginu.“

Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðiprófessor.
Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðiprófessor. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert