Milljarðslækkun ekki rædd

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.

Kjör sérgreinalækna hækkuðu ekki um 20% í kjölfar samnings sem gerður var við þá um síðustu áramót heldur miklu frekar um 3-4%. Hins vegar var samið um að fella niður sérstök komugjöld sem sérgreinalæknar höfuð búið til og velt yfir á sjúklinga sem þýddi að kostnaður sjúklinga lækkaði um hátt í milljarð. Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um verkfall lækna.

Málshefjandi var Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns frmaboðs, sem sagði að samið hefði verið við sjálfstætt starfandi lækna um síðustu áramót og kjör þeirra hækkuð um 20%. „Þar með er verið að setja hvata inn í kerfið að fólk úr almennu stofnunum leiti í einkarekstur, leiti hófanna þar.“ Beindi hann þeirri fyrirspurn til ráðherrans hvort það væri gert með ráðnum hug. Rétta yrði af hallann gagnvart kjörum lækna erlendis, að minnsta kosti að einhverju leyti, og þá ekki síst gagnvart einkarekstri. Að öðrum kosti yrði niðurstaðan einkarekið heilbrigðiskerfi. Kristján sagði rangt að kjör sérgreinalækna hefðu hækkað um 20% vegna samningsins um síðustu áramót.

„Þetta er alrangt og örugglega stafar það að hluta til af því að við höfum ekki getað skýrt hvað væri þar í gangi. Sérgreinalæknar voru samningslausir frá árinu 2010 til ársloka 2013. Þeir bjuggu þá til komugjald sem þeir veltu yfir á sjúklinga til þess að halda í við þá kostnaðarhækkun sem á þessum tíma var. Við samninginn, sem gerður var við sérgreinalækna undir lok ársins 2013, þá var þetta komugjald og þessi kostnaður sjúklinga felldur niður. Hlutdeild sjúklinga í þessum sérgreinalæknakostnaði lækkaði úr því að vera 42% niður í að vera 30%. Þ.e.a.s. greiðslur sjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu lækkuðu um hátt í milljarð við þennan samning,“ sagði ráðherrann og ennfremur:

„Ég geri mér alveg fullljóst að aðilar vinnumarkaðarins og sjúklingasamtökin hafa orðið vör við þessa breytingu en hún er ekki rædd. Kannski stafar það af því að við höfum ekki komið þessum staðreyndum nægjanlega vel á framfæri, en svona eru hlutirnir og þannig eru þeir vaxnir. Og það er rangt að halda því fram að þarna sé um það að ræða að kjör þessara stétta hafi hækkað um 20% við þennan samning. Þau gætu hafa hækkað um svona á bilinu 3-4%.“

Ögmundur Jónasson alþingismaður.
Ögmundur Jónasson alþingismaður. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert