Halda ætti stjórnmálamönnum í sem mestri fjarlægð þegar unnið er að nýjum stjórnarskrám. Þetta segir Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor og fyrrverandi fulltrúi í stjórnlagaráði, í grein sem birtist á dögunum á vefsíðu bresku rannsóknarstofnunarinnar Democratic Audit en stofnunin starfar í tengslum við breska háskólann London School of Economics.
Þorvaldur fer í greininni yfir stjórnarskrármálið svonefnt í kjölfar falls viðskiptabankanna haustið 2008 og hvernig það þróaðist. Sakar hann Hæstarétt um að hafa ógilt stjórnlagaþingskosningarnar sem fram fóru 2010 á veikburða forsendum ef ekki ólögmætum. Hann vandar ekki heldur stjórnmálamönnum kveðjurnar og sakar þá um áhugaleysi á stjórnlagaþingskosningunum og að hafa ekkert gert til þess að hvetja fólk til þess að styðja drög stjórnlagaráðs, sem var skipað í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar, fyrir þjóðaratkvæðið 2012.
Þorvaldur segir að ákveðinn lærdóm megi draga af stjórnarskrármálinu. Mikilvægt sé að hefja vinnu að nýrri stjórnarskrá á þjóðfundi með þverskurði þjóðarinnar þar sem stjórnmálaflokkar hafi þá tilhneigingu að þjóna hlutverki hagsmunabandalaga fyrir stjórnmálamenn eða aðra hagsmunahópa. „Fyrir þær sakir ætti ekki að hleypa stjórnmálamönnum nálægt stjórnarskrárferlinu þar sem hætta er á að þeir reyni að taka það yfir í eigin þágu.“