Fimm einstaklingar og sjö lögaðilar hér á landi eiga meira en eitt hundrað skotvopn. Alls eru skráð 72.640 skotvopn á Íslandi, þar með talin skiptihlaup, og er þá um að ræða skotvopn í vörslum einstaklinga og lögaðila. Sá sem á þau flest hefur yfir að ráða 214 skotvopnum.
Þetta kemur fram í svari embættis ríkislögreglustjóra við fyrirspurn mbl.is vegna umræðu um vopnabúnað lögreglu og mögulegrar fjölgunar vopna hennar. Í svarinu kemur einnig fram að 94 einstaklingar og 20 lögaðilar eiga 20 eða fleiri skotvopn. Ekki fæst nákvæm staðsetning þeirra sem eiga svo mörg skotvopn en heimilisfesti er bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.
Þannig sé hlaupið lauslega yfir lista þeirra sem flest eiga skotvopnin þá trónir á toppnum einstaklingur sem hefur í vörslum sínum 214 vopn, sá næsti á 169 skotvopn og þriðji 129. Þeir tíu einstaklingar sem þau flest eiga hafa yfir ráða 1.131 skotvopni.
Ákvæði vopnalaga nr. 16/1998 og reglugerðar um skotvopn, skotfæri o.fl. nr. 787/1998 fjalla almennt um skyldur eigenda og vörsluaðila skotvopns. Samkvæmt 23. gr. vopnalaga nr. 16/1998 skal eigandi eða vörsluaðili skotvopns og skotfæra ábyrgjast vörslu þeirra með þeim hætti að óviðkomandi aðili nái ekki til þeirra.
Þegar skotvopn og skotfæri eru ekki í notkun skulu skotvopn annars vegar og skotfæri hins vegar geymd í aðskildum og læstum hirslum. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um vörslu skotvopna og skotfæra. Er m.a. heimilt að setja skilyrði um tiltekna geymslu skotvopna eftir að tilteknum skotvopnafjölda er náð.
Samkvæmt 34. gr. reglugerðar um skotvopn, skotfæri o.fl. skulu eigendur eða umráðahafar skotvopna og skotfæra ábyrgjast vörslur þeirra og sjá svo um, að óviðkomandi nái ekki til þeirra. Í því skyni skal húsnæði sem geymir skotvopn og skotfæri ávallt læst ef íbúar eru fjarverandi. Við lengri fjarveru skal auk þess sem að framan greinir gera skotvopn óvirkt t.d. með því að fjarlægja af því nauðsynlega hluta aðra en láshús.
Þegar skotvopn og skotfæri eru ekki í notkun skulu skotvopn og skotfæri geymd í aðskildum, læstum hirslum.
Lögreglustjóra er heimilt að setja skotvopnaleyfishafa sérstök skilyrði um geymslu og varðveislu skotvopna og skotfæra.
Hámarksmagn skotfæra sem einstaklingi er heimilt að kaupa og geyma hverju sinni er 5.000 skot. Lögreglustjóra er heimilt að veita undanþágu frá þessu hámarki ef viðkomandi hefur yfir að ráða sérútbúinni geymslu eða skáp.
Ef einstaklingur á fleiri en þrjú skotvopn er honum skylt að geyma þau í sérútbúnum vopnaskáp sem samþykktur er af lögreglustjóra.
Einstaklingar með söfnunarleyfi, skal skv. 22. gr. reglugerðarinnar sækja um slíkt leyfi til viðkomandi lögreglustjóra sem skal ásamt slökkviliðsstjóra gera úttekt á aðstöðu umsækjanda til geymslu og söfnunar skotvopna.