Innstæður landsmanna í bönkum, sparisjóðum, á orlofsreikningum o.fl. hafa lækkað nær sleitulaust að raunvirði frá árinu 2009, eða um 331,8 milljarða sem er 41,5%.
Þetta kemur fram í nýrri úttekt Páls Kolbeins, hagfræðings hjá embætti Ríkisskattstjóra, á skattaálagningu ársins 2013, sem birt er í Tíund, tímariti embættisins.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag bendir Páll á, að nokkuð hafi dregið úr lækkun innstæðna upp á síðkastið en þær rýrnuðu um 14,6 milljarða að raunvirði í fyrra. „Það kunna að vera ýmsar ástæður fyrir því að innstæður hafa rýrnað frá hruni. Það hefur verið verðbólga og vextir af innlánum hafa almennt ekki haldið í við hana. Innstæður hafa því misst verðgildi sitt. Þá kann að vera að menn hafi gengið á innstæður þegar harðnaði á dalnum eða fjárfest þegar líða tók frá þeim efnahagslegu sviptingum sem gengu yfir landið auk þess sem einhverjir hafa greitt niður lán,“ segir í greininni.