Rúmlega eitt þúsund dag- og göngudeildarkomum og um 250 skurðaðgerðum og sérhæfðum meðferðum hefur verið frestað á Landspítalanum frá því að verkfallsaðgerðir lækna í Læknafélagi Íslands hófust fyrir tæpum tveimur vikum.
Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, segir ástandið fyrst og fremst bagalegt fyrir sjúklingana.
Um er að ræða skurðaðgerðir á borð við kviðarholsaðgerðir, brjósklosaðgerðir, liðskipti, hjartaaðgerðir og krabbameinsaðgerðir á brjóstum, ristli og blöðruhálskirtli.
Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, segir að bráðaþjónustu hafi verið sinnt alla þá daga sem verkfallið stóð yfir og áhersla hafi verið lögð á að fólk sem telur sig vera í brýnni þörf leiti til sjúkrahússins.
„Á Landspítala rekum við hins vegar flókna og viðkvæma reglulega starfsemi sem má illa við röskun. Hér eru allur tími bæði á dag,- göngu- og skurðstofum gjörnýttur svo lítið borð er fyrir báru hjá okkur að auka starfsemina til að mæta þessari truflun sem orðið hefur,“ segir Páll.
Hann segir ástandið fyrst og fremst bagalegt fyrir sjúklingana. „Við finnum fyrir því að mörgum er órótt og eru kvíðnir vegna þessa. Önnur lota þessara aðgerða hefst eftir rúma viku en við hvetjum deiluaðila til að semja áður en hún skellur á. Landspítali er þjóðarsjúkrahúsið og mikilvægur hlekkur í öryggi landsmanna og það er ótækt að þessi deila dragist frekar,“ segir Páll.