Hefur verulegar áhyggjur af áfengisfrumvarpi

Áfengi kemur víða við sögu.
Áfengi kemur víða við sögu. AFP

Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur áfengisfrumvarpi Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, og Barnaverndarstofa getur ekki mælt með því að smásala áfengis verði gefin frjáls. Þetta má lesa úr umsögnum við frumvarpið.

Í umsögn Barnaverndarstofu segir að verði frumvarpið að lögum skapi það aukna hættu á að börn geti nálgast áfengi. Það að fela einkaaðilum, sem eðlilega starfi á grundvelli hagnaðarsjónarmiða, smásölu áfengis sé grundvallarbreyting og veltir Barnaverndarstofa upp þeim spurningum um hvata matvöruverslana til að stilla takmörkunum á sölu áfengi í hóf.

Þá segir í umsögn umboðsmanns barna að verði sala áfengis leyfð í matvöruverslunum muni það auðvelda verulega möguleika barna og ungmenna til þess að nálgast áfengi. „Auk þess er hætta á að aukinn sýnileiki áfengis muni stuðla að jákvæðum viðhorfum til áfengis og hvetja til aukinnar neyslu meðal unglinga.“

En sala áfengis í matvöruverslunum yrði ekki eingöngu til þess að auka aðgengi barna og ungmenna að áfengi heldur til þess að áfengisneysla í samfélaginu myndi aukast. „Auðsýnt er að aukin áfengisneysla í samfélaginu getur haft margvísleg neikvæð áhrif á líf barna. Sem dæmi má nefna að neysla áfengis eykur líkurnar á vanrækslu barna, ofbeldi, umferðarslysum og öðrum slysum.

Þá hefur áfengi neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu fólks og eykur líkurnar á ýmsum sjúkdómum. Er því ljóst að aukið aðgengi að áfengi muni hafa verulega neikvæðar afleiðingar í för með sér, þar á meðal aukið álag á barnaverndarkerfið og heilbrigðiskerfið, með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir ríkið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert