Hófu spilun jólalaga í vikunni

Spilun jólalaga er hafin á Létt Bylgjunni en hlustendur Rásar …
Spilun jólalaga er hafin á Létt Bylgjunni en hlustendur Rásar 1 og Rásar 2 þurfa að bíða dálítið lengur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Létt-Bylgjan hóf spilun á jólalögum í síðustu viku en hjá Ríkisútvarpinu gildir aftur á móti sú óskráða regla að jólalögin byrja ekki að hljóma á Rás 1 og Rás 2 fyrr en eftir 1. desember.

Að sögn Jóhanns K. Jóhannssonar, dagskrárgerðarmanns á Létt-Bylgjunni, fannst starfsfólkinu við hæfi að hefja spilun jólalaganna í vikunni. 

„Undirbúningur jólanna er farinn í gang hjá mörgum, skreytingar komnar í verslanir sem keppast við að koma sínum boðskap á framfæri fyrir jólin,“ segir Jóhann og bætir við að einnig hafi heyrst af heimilum þar sem búið er að koma fyrir jólaskreytingum.

Hann segir þó að eftirspurnin hafi komið mest á óvart en í nokkrar vikur hafi borist fyrirspurnir frá hlustendum sem vildu vita hvenær spilun jólalaganna hæfist. Eitt og eitt lag verður spilað inn á milli til að byrja með en síðan verða jólalögin meira áberandi. 

Hefja spilun fyrsta í aðventu

Ólafur Páll Gunnarsson, Óli Palli, verkefnastjóri tónlistar hjá Ríkisútvarpinu, segir að jólalögin byrji ekki að hljóma á Rás 1 og Rás 2 fyrr en fyrsta í aðventu eða síðar.

Hann segir engan hafa kvartað yfir því að spilun jólalaganna sé ekki hafin. „Við tökum þetta með trompi þegar desember kemur,“ segir Óli Palli. Fljótlega verður einnig auglýst eftir lögum í jólalagakeppni RÚV. 

Jóhann K. Jóhannsson
Jóhann K. Jóhannsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert