„Bananarnir sem eru á plöntunum hér þessa dagana eru býsna vænir og senn fullvaxta. Nokkrir klasar verða teknir niður í næstu viku og þá fyllist hér allt af ávöxtum,“ segir Elías Óskarsson á Reykjum í Ölfusi.
Garðyrkjudeild Landbúnaðarháskóla Íslands er á Reykjum við Hveragerði. Þar hefur Elías unnið mörg undanfarin ár við ýmis ræktunarstörf í gróðurhúsum skólans.
Í húsunum kennir ýmissa grasa, í orðsins fyllstu merkingu. Sumt þar er sjaldséð hér á landi, svo sem bananaplöntur. Það er jarðhitinn sem skapar þau skilyrði að yfir höfuð hægt sé að rækta banana á Íslandi. Raunar eru slíkir hvergi í Evrópu ræktaðir í sama mæli og gerist í Ölfusinu, þó afurðirnar þar dugi aðeins til heimabrúks. Bjúgaldin það sem Íslendingar fá kemur að stærstum hluta frá Afríkulöndum og Ástralíu.
Það var árið 1942 sem fyrstu bananaplöturnar komu að Reykjum og áratug síðar var byrja að rækta þær í sérbyggðu gróðurhúsi. Starfsfólki Garðyrkjuskóla ríkisins, sem þá var og hét, sinnti á þessum tíma ýmsum tilraunum á því hvaða ræktun grænmetis og ávaxta hentaði best hér á landi. Tómatar, gúrkur, paprika og ýmsar káltegundir þóttu koma best út. Bananabúskapur var hins vegar ekki að gera sig, enda var fyrirséð að framleiðslan yrði ekki næg svo arðbær yrði. Úr því ákveðin reynsla hafði fengist við ræktun á bjúgaldinum var hins vegar ákveðið að halda áfram, að öðrum þræði til gamans.
„Nei, það er ekki svo ýkja flókið að rækta banana. Hitinn í gróðurhúsunum þarf að vera um 20-25°C og rakastigið um 80 til 90% en plönturnar sjálfar skapa þennan háa loftraka,“ segir Elías. Hann er öllum hnútum kunnugur í þessari ræktun frá gamalli tíð, því afi hans Guðjón H. Björnsson sem lengi var verknámskennari að Reykjum var upphafsmaður þessarar ræktunar og sinni henni lengi.
Um 100 bananaplöntur eru í gróðurhúsinu að Reykjum og skilar hver þeirra einum klasa á æviskeiði sínum. Uppskeran fæst árið um hring, en strax þegar henni er náð þarf að fella plönturnar. Nýjar spretta svo upp af rótarstofni, en þumalputtareglan er sú að eitt og hálft ár líði fá því fyrsti sprotinn kemur upp úr moldinni uns bananarnir, gulir og þroskaðir, eru tíndir af plöntu.