Telur ásetning ekki fyrir hendi

Sigurður Einarsson og Ólafur Ólafsson.
Sigurður Einarsson og Ólafur Ólafsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ekki hefði verið sakfellt í Al Thani-málinu samkvæmt dönskum lögum, þar sem hvorki hefði verið sannað að ásetningur til umboðssvika hefði verið fyrir hendi né að markaðsmisnotkun hefði átt sér stað. Þetta er mat Eriks Werlauff, lagaprófessors við Álaborgarháskóla, sem unnið hefur lögfræðilegt mat á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir verjendur þeirra Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, og Ólafs Ólafssonar, fyrrverandi hluthafa í Kaupþingi. Werlauff gagnrýnir einnig rannsókn málsins og telur hana stangast í veigamiklum atriðum á við Mannréttindasáttmála Evrópu.

Þeir Hreiðar Már, Ólafur, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings banka í Lúxemborg, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hlutu allir fangelsisdóma á bilinu þrjú til fimm og hálft ár í Héraðsdómi Reykjavíkur í desember síðastliðnum fyrir umboðssvik eða hlutdeild í umboðssvikum og fyrir markaðsmisnotkun, með þætti sínum í sölu á hlutabréfum í Kaupþingi til Mohammeds Al Thanis, sjeiks frá Katar. Verjendur áfrýjuðu dómnum til Hæstaréttar og verður málið tekið fyrir 26. janúar næstkomandi.

Í kjölfar dómsins báðu verjendur þeirra Hreiðars Más og Ólafs Erik Werlauff að fara yfir dóminn og veita lögfræðilegt álit á efni hans, en Werlauff hefur verið prófessor í viðskipta- og fyrirtækjarétti við háskólann í Álaborg frá árinu 1989. Lars Bo Langsted, prófessor í refsirétti við Álaborgarháskóla, veitti síðan verjendum umsögn um álit Werlauffs og tók undir það í meginatriðum. Werlauff fékk aðgang að þeim gögnum málsins sem hann bað um, en þar á meðal voru ákærur í málinu, greinargerðir, þýðingar á lagaákvæðum og skýrslur lykilvitna. Samkvæmt heimildum blaðsins fékk Werlauff greitt fyrir þann tíma sem hann lagði í gerð skýrslunnar.

Enginn auðgunarásetningur

Werlauff fer yfir dóm héraðsdóms út frá dönskum lögum, Evrópurétti og Mannréttindasáttmála Evrópu. Niðurstaða hans er sú, að ekki hefði verið sakfellt fyrir umboðssvik að dönskum rétti, þar sem tvo grundvallarþætti skorti til þess. Í fyrsta lagi hefði þurft að sanna ásetning sakborninga til þess að hagnast sjálfir eða tryggja þriðja aðila hagnað á viðskiptunum. Í öðru lagi hefði þurft að sýna fram á að ásetningur sakborninga hefði verið sá að valda Kaupþingi skaða. Kemst Werlauff að þeirri niðurstöðu að sakborningar hafi þvert á móti reynt að auka hagnað Kaupþings með því að koma í verð hlutabréfum í eigu bankans sem annars væru verðlaus. Werlauff rökstyður skoðun sína með því að nefna nokkur fordæmi úr dönskum rétti, þar sem sýknað var fyrir skort á ásetningi. Werlauff tekur fram að í tilviki umboðssvika hefði ekki verið hægt að gera Hreiðar Má ábyrgan fyrir mistökum undirmanna sinna, þar sem hann vissi ekki af þeim.

Raunveruleg sala á bréfunum

Werlauff lagði einnig mat á þann hluta dómsins sem sneri að markaðsmisnotkun. Er það niðurstaða hans að ekki hefði heldur verið sakfellt fyrir þann þátt málsins að dönskum rétti, þar sem sala hlutabréfanna til Q Iceland Finance, félags Al Thanis, hefði verið raunveruleg sala og Al Thani hefði við hana orðið hinn raunverulegi eigandi hlutabréfanna. Hann myndi því bera þann hagnað eða það tap sem yrði á verði bréfanna.

Í dómi héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að Kaupþingi hefði verið skylt að tilkynna það til Kauphallar Íslands að Ólafur Ólafsson átti eitt af þeim fyrirtækjum sem komu að fjármögnun sölunnar til Al Thanis. Werlauff hafnar því með vísun í tilskipanir Evrópusambandsins, sem einnig gilda hér á landi. Kaupþing hefði hvorki haft þá skyldu né nokkurn rétt til þess að tilkynna fjármögnun sölunnar og hefði bankinn í raun orðið brotlegur við lög um bankaleynd hefði hann gert það.

„Svívirðileg“ framkoma

Sterkt er tekið til orða í áliti Werlauffs um þá ákvörðun sérstaks saksóknara að láta alþjóðalögregluna Interpol lýsa eftir Sigurði Einarssyni. Segir hann, að ef atburðarásinni sé rétt lýst fyrir sér, sé framkoma ákæruvaldsins „svívirðileg“ og geti líklega talist brot á tveimur greinum Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð, sér í lagi ákvæðið um að menn teljist saklausir uns sekt sannast og friðhelgi einkalífs.

Á þeim tíma stóð eingöngu til að yfirheyra Sigurð og vitað var hvar hann hélt sig. Lögregla og saksóknari hefðu því verið í slæmri trú þegar þau lýstu eftir Sigurði sem flóttamanni.

Hörður Felix Harðarson og Hreiðar Már Sigurðsson.
Hörður Felix Harðarson og Hreiðar Már Sigurðsson. mbl.is/Ómar Óskarsson
Björn Þorvaldsson saksóknari (til hægri) og aðstoðarfólk hans. Björn var …
Björn Þorvaldsson saksóknari (til hægri) og aðstoðarfólk hans. Björn var saksóknari í Al-Thani-málinu. mbl.is/Ómar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert