Mjólkursamsalan áætlar að selja yfir 100 milljón dósir af skyri á næsta ári, en stöðug aukning hefur verið í skyrsölu á síðustu árum. Skyrsalan á Norðurlöndum hefur á s.l. fimm árum sexfaldast í magni.
Nú er svo komið að 80% af skyrsölu MS og samstarfsfyrirtækja eru á erlendri grundu en 20% innanlands. Auk Íslands hefur skyr verið selt í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð í nokkur ár og nýir markaðir fyrir skyrið eru í Sviss og Færeyjum.
Í umfjöllun um skyrsöluna í Morgunblaðinu í dag segir Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Mjólkursamsölunnar, að sala erlendis hafi á þessu ári aukist um 85%.