Bjarni: Hagur leigjenda mun batna

Bjarni bendir á að kjósendur hafi falið ríkisstjórninni þetta verkefni.
Bjarni bendir á að kjósendur hafi falið ríkisstjórninni þetta verkefni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er ánægjuleg heildarniðurstaða að fólk sem nýtir sér úrræðin til fulls mun geta lækkað skuldir sínar um 20% og að meðal niðurfærslan er aðeins meiri en við gerðum ráð fyrir,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra í samtali við mbl.is eftir blaðamannafund sem haldinn var um niðurstöðu leiðréttingarinnar í Hörpu í dag. 

Hagur leigjenda muni batna á næstu árum þó svo að þessi aðgerð beinist aðeins til þeirra sem tóku verðtryggð fasteignalán til kaupa á eigin húsnæði, segir Bjarni. 

Á blaðamannafundinum kom m.a. fram að skuld­ir heim­il­anna muni lækka um tutt­ugu pró­sent að meðaltali og að af­skrift­in mun fara fram á rúmu ári í stað fjög­urra líkt og upp­haf­lega var gert ráð fyr­ir og verður að fullu lokið í árs­byrj­un 2016 í stað árs­loka 2017. 

Kjósendur fólu ríkisstjórninni verkefnið

„Umfang aðgerðarinnar er það sem við höfum rætt um til þessa og við getum fengið aðeins jákvæðari niðurstöðu með því að hraða framkvæmd þessara mála í ljósi betri afkomu ríkissjóðs,“ bætir Bjarni við.

Bjarni segir jafnframt að samkvæmt verðbólguspá næsta árs verði verðbólgan innan vikmarka á næsta ári. „Aðgerðin sem slík hefur legið fyrir í langan tíma það er vel rúm fyrir aðgerð sem þessa án þess að verðbólgan fari úr böndunum.“

Bjarni benti einnig á að kjósendur hafi falið ríkisstjórninni þetta verkefni.

„Þetta verkefni fólu kjósendur ríkisstjórninni. Það að grípa til markvissra aðgerða vegna alvarlegrar stöðu heimilanna. Verkefnið birtist í tugþúsundum Íslendinga en líka þeirri staðreynd hversu hátt yfir 100% skuldir heimilanna fóru í hlutfalli við landframleiðslu við vorum komin. Nú náum við því aftur niður í 95% í lok árs sem er gríðarlega mikilvægt í efnahagslegu tilliti.“

Hagur leigjenda mun batna á næstu árum

Bjarni segir að ríkisstjórnin hafi ráðist í aðgerðina vegna skuldastöðu heimilanna.

„En annað sem fylgir í kjölfarið sem bætir hag landsmanna eru hlutir sem snerta efnahagslífið í stærra samhengi. Eins og til dæmis það að greiða fyrir aukinni fjárfestingu á  komandi árum. Okkar stærstu verkefni á komandi árum eru tengd gjaldeyrishöftunum, atvinnustigi í landinu og aukinni framleiðslu á Íslandi. Bætt staða ríkissjóðs mun gera okkur kleift að fara í frekari innri fjárfestingar, fjárfesta í velferðarkerfinu, heilbrigðismálum og menntamálum,“ segir Bjarni. 

Hann segir einnig að hagur leigjenda muni batna á næstu árum þó svo að þessi aðgerð beinist aðeins til þeirra sem tóku verðtryggð fasteignalán til kaupa á eigin húsnæði. 

„En við höfum auðvitað önnur úrræði til þess að komast til móts við þá. Eru til skoðunar í velferðarráðuneytinu aðgerðir sem geta styrkt stöðu leigjenda. Þar skiptir til dæmis niðurfelling vörugjalda skiptir miklu máli fyrir húsnæðismarkaðinn í heild sinni. Við áætlum einnig að byggingakostanaður muni lækka kjölfarið,“ segir Bjarni.

Hann segir að það að hafa verðbólguna lága skiptir máli bæði fyrir leigjendur og húsnæðiskaupendur. „Mestan stuðning veitum við fólki með því að tryggja hátt atvinnustig og jafnvægi í efnahagslífinu.“

Aðspurður hvort að hann sé stoltur af aðgerðum ríkisstjórnarinnar segir hann svo vera. „Ég er mjög stoltur yfir því að okkur skildi takast að ljúka þessu gríðarlega stóra og mikilvæga verkefni á eins skömmum tíma og svo er raunin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert