Gefa ekki upp birtingartímann

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri.
Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri. Kristinn Ingvarsson

Ríkisskattstjóri býst við miklu álagi á vefsíðu embættisins þegar niðurstöður skuldaniðurfellinga verða birtar á morgun. Reynt verður að dreifa álaginu og því verður ekki gefið upp klukkan hvað niðurstöðurnar birtast á netinu.

Þeir sem fá niðurgreiðslu ríkissjóðs á hluta fasteignalána sinna geta nálgast upplýsingar um upphæð hennar á vefsíðunni leiðrétting.is á morgun. Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segist reikna með að þá verði birtar niðurstöður fyrir 94.604 kennitölur. Því megi búast við töluverðu álagi á vefsíðuna. Embættið hafi gert sérstakar ráðstafanir vegna þess, þar á meðal að gefa ekki út klukkan hvað niðurstöðurnar verði opinberar.

„Við munum haga birtingunni þannig að álagið dreifist sem mest. Ef þetta yrði birt á tilteknum tíma þá myndu allir ráðast á þann tíma. Við segjum bara að þetta verður birt á morgun og svo spyrst það út. Það þýðir dreifingu á álaginu,“ segir Skúli Eggert.

Þessu til viðbótar er Advania, þjónustuaðili embættis ríkisskattstjóra, með aukinn vélbúnað í viðbragðsstöðu. Þá eru upplýsingarnar sem hver og einn fær einfaldar þannig að fólk þarf ekki að staldra lengi við á síðunni.

Um 90% af þeim kennitölum sem eru að baki umsókna um skuldaniðurfellingu verða birtar á morgun en enn eru um 10.000 kennitölur sem eftir á að afgreiða. Skúli Eggert segir að þar sé um að ræða flóknari umsóknir eða þær sem vantaði frekari upplýsingar. Þar á meðal eru aðilar sem áttu mörg heimili á umsóknartímanum, hafa farið í gegnum lánabreytingar eða fengið aðra fyrirgreiðslu. Allir þeir sem ekki fá birtingu á morgun fá sendan tölvupóst þegar niðurstöður þeirra verða tilbúnar.

Skúli Eggert gerir ráð fyrir að á föstudag verði upplýsingar fyrir einhver hundruð kennitalna til viðbótar birtar. Birtingunni verði svo lokið smátt og smátt fyrir áramót.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert