„Niðurstaðan afskaplega ósanngjörn“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þessi niðurstaða er afskaplega ósanngjörn og nýtist best þeim sem hafa mest á milli handanna.“ Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is um niðurstöðu leiðréttingarinnar sem kynntar voru í dag.

Niðurstaðan var kynnt í beinni útsendingu eftir hádegi í dag og verða niðurstöður 90% umsókna birtar umsækjendum á morgun.

Efndirnar langt frá því sem lofað var

Árni Páll sagði athyglivert hversu mikið væri lagt í sýningu í tengslum við leiðréttinguna. Efndirnar væru langt frá því sem lofað var í upphafi, „sem voru mörg hundruð milljarðar frá erlendum hrægömmum.“

Niðurstaðan er sú að 80 milljarðar verða greiddir úr sameiginlegum sjóðum, sagði Árni Páll og bætti við að ekkert nýtt hefði komið fram sem benti til þess að aðgerðin sé skilvirk eða sanngjörn. „Í eðli sínu er þetta aðgerð sem nýtist best þeim sem mest hafa fyrir.“

Þekki vandann ekki nema af afspurn

Árni Páll segir að flokkurinn hafi gert breytingatillögur vegna aðgerðarinnar í voru með það að markmiði að auka réttlæti hennar. Meðl annars hafi verið lagt til að ríkasta fólkið yrði undanskilið frá leiðréttingunni en ekki var orðið við tillögunum. 

Sagði Árni Páll einnig að flokkurinn hefði viljað mæta vanda þeirra sem urðu fyrir alvarlegu misgengi vegna húsnæðislána en á sama tími fengi fullt af fólki peninga úr sameiginlegum sjóðum sem þekki skuldavanda ekki nema af afspurn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert