Vegur þyngst fyrir fólk undir meðaltekjum

Skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar er aðgerð sem mun vega þyngst fyrir fólk sem er undir meðaltekjum, var innan við fertugt fyrir efnahagshrun, á lítið eigið fé í húsnæði sínu og skuldar á bilinu 15 - 30 milljónir króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. Þar segir að eiginfjárstaða 56.000 heimila muni styrkjast með beinum hætti. 

Fram kemur, að lánum verði skipt upp í tvo hluta, frum- og leiðréttingarlán, og skuldari muni einungis greiða af frumláni frá og með uppskiptingu lánsins. 

Þá segir, að leiðréttingin lækki höfuðstól íbúðalána um 150 milljarða króna á næstu 3 árum og við fullnýtingu leiðréttingar lækki höfuðstóll íbúðalána um allt að 20%. 

„Með beinu  og óbeinu framlagi ríkisins er öll verðbólga umfram 4% á árunum 2008-2009 leiðrétt til fulls. Eiginfjárstaða 56.000 heimila styrkist með beinum hætti og um 2500 heimili færast úr því að eiga ekkert eigið fé í fasteign sinni yfir í jákvæða eiginfjárstöðu.

Fjármögnunartími aðgerðanna verður styttur úr þremur árum í eitt. Það tryggir betri nýtingu fjármuna  sem ella hefðu farið í vaxtagreiðslur til fjármálastofnana og gerir stjórnvöldum kleift að greiða hærri fjárhæðir inn á höfuðstól lána. Verða 40 milljarðar greiddir inn á leiðréttingarlánin á þessu ári, 20 milljarðar í upphafi næsta árs og 20 milljarðar í byrjun árs 2016,“ segir í tilkynningunni.

„Leiðréttingin styrkir þannig forsendur frekari hagvaxtar og og léttir skuldabyrði heimilanna. Öflugur hagvöxtur og lítil verðbólga getur stutt frekar við eiginfjárstöðu íslenskra heimila á næstu misserum. 

Inngreiðslur séreignarsparnaðar á höfuðstól hefjast um næstu mánaðamót og höfuðstólslækkun með leiðréttingarleið eftir staðfestingu skuldara í desember. Hver og einn getur kynnt sér niðurstöðu höfuðstólslækkunar lána sinna á leidretting.is frá og með 11. nóvember,“ segir ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert