„Sinnið sjúklingum, ekki sægreifum!“ hljómaði á Austurvelli í dag, þegar mótmælendur söfnuðust saman fyrir framan Alþingishúsið um kl. 17. Þar bar mótmælaspjöld og kústa við himininn og á einum stað blakti fáni Evrópusambandsins, undir hrópum eftir nýju Íslandi.
„Simmi lýgurðu svona heima hjá þér?“ „Hvernig býrðu Bjar-N1" „Nýtt Ísland takk fyrir“ stóð m.a. á mótmælaspjöldunum.
„Það eru lygarnar,“ svaraði einn viðmælenda mbl.is, spurður að því hverju hann væri að mótmæla. Aðrir svöruðu á sama veg. Allir sögðust vera óánægðir með stjórnvöld. Margir töluðu um vitlausa forgangsröðun.
Tvær konur sem blaðamaður ræddi við sögðust óánægðar með virðingarleysið sem fólki væri sýnt, að gert væri lítið úr áhyggjum þess. Önnur þeirra, heilbrigðisstarfsmaður, sagði ástandið í heilbrigðiskerfinu hreint út sagt skelfilegt. Hún undraðist á því að stjórnvöld hefðu fundið fjármuni í skuldaleiðréttingar en ekki til að byggja spítala og hækka laun.
„Áfram tónlistarkennarar, áfram læknar, áfram Austurvöllur, áfram Ísland!“ hrópaði einn formælenda í míkrafóninn og uppskar lófaklapp og fagnaðarköll. „Banvæn ríkisstjórn,“ hljómaði einnig fyrir utan þinghúsið.
„Það stefnir í einkavæðingu,“ sagði annar viðmælandi um heilbrigðiskerfið. Sá sagðist hafa reynslu af einkavæddu kerfi og sagði þjónustuna ekki myndu batna heldur snerist sá leikur um að græða peninga. Hann sagði ónýtt að fólk fengi aðeins að kjósa á fjögurra ára fresti, og sæti svo uppi með stjórnvöld út kjörtímabilið, hvort sem því líkaði betur eða verr.