„Gefur þeim tekjuhæstu heila Hörpu“

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Á meðan eldarnir loga í velferðarkerfinu leikur forsætisráðherra sér í Hörpu. Með skuldaleiðréttingunni gefur hann svo þeim tekjuhæstu í landinu heila Hörpu að gjöf.“ Þetta sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag.

Helgi beindi spurningu að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á þinginu, þar sem hann spurði hvort skuldaleiðréttingin sem var birt í gær væri raunveruleg leiðrétting á forsendubrestinum sem heimili urðu fyrir í hruninu. 

Sigmundur sagði Helga „halda áfram með sömu vitleysisumræðuna,“ og taldi hann vera einn af fáum sem liti svo neikvæðum augum á leiðréttinguna. Hann benti á það að meira en 20 milljarðar, eða helmingurinn af því fjármagni sem notað var í 110% leið fyrrverandi ríkisstjórnarinnar, hefði farið til 1% heimila í landinu. 

Skuldaleiðréttingin nái hins vegar til mun breiðari hóps, en 75% fjármagnsins rennur til einstaklinga undir 7 milljónum í árstekjur. 25% rennur til þeirra sem eru rétt ofan við 7 milljónir, og sagði Sigmundur sárafátt hátekjufólk njóta leiðréttingarinnar.

Heildarfjár­hæð aðgerðanna nem­ur 150 millj­örðum króna og nær til ríf­lega 120 þúsund um­sækj­enda. Mánaðarleg greiðslu­byrði get­ur lækkað um ríf­lega 15 pró­sent nýti heim­ili sér úrræði leiðrétt­ing­ar­inn­ar til fulls.

Helgi benti á það að greiðslubyrði lækki um 7-9 þúsund á mánuði hjá helmingi heimila, og sagðist telja að verðbólga muni í kjölfarið hækka og vaxtabæturnar minnka. Sigmundur vísaði þessu á bug og sagði að ef svo óheppilega vildi til að verðbólgan færi aftur á skrið væri þeim mun mikilvægara að hafa ráðist í leiðréttinguna því á ætti hún eftir að koma sér vel.

„Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa aukið kaupmátt íslenskra heimila meira en nokkurs staðar í Evrópu og aðgerðir í skattakjörum munu auka þau enn frekar.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert