„Það er ókyrrð í fólki yfir þessu“

mbl.is/Ómar

„Það er mjög erfið staða fyrir stúdenta að nú sé komið til verkfallsboðunar annað próftímabilið í röð,“ segir Ísak Rúnarsson, formaður Stúdentaráðs um fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir prófessora

Fé­lag pró­fess­ora við rík­is­háskóla hef­ur boðað til verk­falls 1.-15. des­em­ber næst­kom­andi. Niðurstaðan er bind­andi og því er ljóst að pró­fess­or­ar fara í verk­fall ná­ist samn­ing­ar ekki fyr­ir 1. des­em­ber. Yfir 77% fé­lags­manna tóku þátt í kosn­ing­unni og yfir 80% þeirra samþykktu fyr­ir­hugaðar verk­fallsaðgerðir

„Það er ókyrrð í fólki yfir þessu. Fólk vill varla trúa því upp á stjórnvöld að láta til þess koma aftur að það sé boðað til verkfalls,“ segir Ísak, en Félag háskólakennara boðaði til verkfalls í vor, en samningar náðust fyrir prófin. „Það er alveg ótækt að stærsti vinnustaður landsins muni lamast ef af verkfalli verður.

Um helmingur prófa felli niður

Ísak segir það ljóst að verkfall muni hafa mikil áhrif á námsmenn. „Það eitt og sér að vita ekki hvenær eða hvort próf verður í námskeiði hefur mjög slæmar afleiðingar fyrir nemendur og nám þeirra. Ofan á það sjáum við svo fram á það að námslán verði ekki greidd út á réttum tíma fyrir stóran hluta námsmanna ef það verður að verkfalli. Í þessum hópi er til dæmis barnafólk sem veit ekki hvernig það á að sjá fyrir börnunum sínum eftir jól.“

Öll próf í nám­skeiðum þar sem pró­fess­or kem­ur að ein­hverju leyti að náms­mati eða er um­sjón­ar­maður nám­skeiðsins munu falla niður eða frest­ast, komi til verkfalls. Þetta er um það bil helmingur prófa.

Óvissuástand slæmt fyrir nemendur

Ísak segir að Stúd­entaráð HÍ sé nú í start­hol­un­um og und­ir­búi aðgerðir vegna hugs­an­legs verk­falls. „Við hvetjum samningsaðila til að hittast á hverjum degi og hafa hag nemenda í huga. Við munum þrýsta á stjórnvöld og hvetja prófessora til að semja sem fyrst. Hver dagur í óvissuástandi hefur mikil áhrif á nemendur.“

Í tilkynningu frá Félagi prófessora við ríkisháskóla kemur fram að samninganefnd félagsins muni á næstu dögum funda með samninganefnd ríkisins og í framhaldinu mun stjórn félagsins taka afstöðu til þess hvort af verkfalli verður. „Stjórn Félags prófessora við ríkisháskóla vonast til að samningar náist án þess að komi til verkfalls.“

Prófessorar boða til verkfalls

„Staða sem við viljum ekki vera í“

Ísak Rúnarsson, formaður Stúdentaráðs.
Ísak Rúnarsson, formaður Stúdentaráðs.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert