500 nýjar íbúðir við Hverfisgötu

Dagur kynnti áform borgarinnar um byggingu 5.000 nýrra íbúða á …
Dagur kynnti áform borgarinnar um byggingu 5.000 nýrra íbúða á næstu fjórum árum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Þetta er hluti af því að nota bæði land og innviði borgarinnar sem best,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Ráðhúsinu í dag. Þar voru uppbyggingaráform Reykjavíkurborgar kynnt, en áætlað er að um 5.000 íbúðir rísi í borgarlandinu á næstu fjórum árum.

Í samtali við mbl.is sagði Dagur að tilgangur kynningarinnar væri að upplýsa borgarana um hvað væri í pípunum og hver stefna borgarinnar væri í skipulagsmálum til að samstarfið verði árangurríkara og markvissara. Sams konar kynningarfundur verður haldinn í Ráðhúsinu klukkan 17:00 á morgun.

„Meginþunginn af uppbyggingunni er miðsvæðis í borginni, þó að við séum að vinna allsstaðar í takt við aðalskipulagið. Við leggjum áherslu á þéttingu borgarinnar þar sem fólk getur búið nær stóru vinnustöðunum og notað fjölbreyttari ferðamáta og sparað við sig bíl númer tvö. Það er svo mikið kjaramál sem fleiri og fleiri eru að átta sig á. Samgöngukostnaður meðalheimilis á Íslandi er númer tvö á eftir húsnæðiskostnaði,“ sagði Dagur í samtali við mbl.is 

Á myndunum hér að neðan má sjá valdar myndir úr glærum sem Dagur notaði við kynninguna. Þar sést í meginatriðum hvernig skipulagið kemur út víða í borginni. Glærurnar má sjá í heild neðst í fréttinni.

„Við viljum gjarnan eiga fyrir stofnkostnaði innviða. Það er minni kostnaður við stofnkostnað á þessum þéttingarsvæðum,“ sagði Dagur á kynningarfundinum, og vísar þar til þéttingarsvæða á svæðum í vestur- og miðhlutum borgarinnar. Í kynningunni mátti meðal annars sjá áform um byggingu 500 nýrra íbúða við Hverfisgötu.

„Við viljum byggja upp í samræmi við húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar, stuðla að uppbyggingu leigumarkaðar og félagslegri blöndun. Þið vitið að um 4% af öllum íbúðum í borginni eru félagslegar íbúðir. Við eigum íbúð í nánast öllum stigagöngum, það bara tekur enginn eftir því vegna þess að þarna býr bara venjulegt fólk sem leigir hjá Félagsbústöðum,“ sagði Dagur. „Þetta á líka að gilda um nýju svæðin.“

„Við erum með það í aðalskipulaginu að á árunum 2016 til 2022 komi Köllunarkletturinn inn sem þróunarsvæði,“ sagði Dagur. „Þetta er á ákveðnu frumstigi, en þarna þarf líka að horfa á lagalegu hliðina.“

Skeifan verði Meatpacking District

Hann benti einnig á að samningar hafi náðst við Ríkisútvarpið um uppbyggingu á lóð þess. Þar verði byggðar 50 íbúðir. „Þetta eru mjög spennandi lóðir á frábærum stað.“ Dagur benti einnig á að bruninn í Skeifunni hafi opnað fyrir möguleika á því svæði.

Borgin hefur verið í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Hönnunarsjóðinn Áróru um hugmyndasmiðjuverkefni í tengslum við uppbyggingu í Skeifunni. Hann líkti uppbyggingunni við Meatpacking District í New York, þar sem gömlu innviðirnir fengu að halda sér, en íbúðabyggð hafi bæst við.

Dagur vakti einnig athygli á Vogabyggð, sem er hvað lengst komin af þeim uppbyggingarsvæðum sem verið væri að skoða. „Við erum búin að fara í gegnum mjög árangursríka þróunarsamkeppni. Svæðið átti upphaflega að bera um 400 íbúðir, en í drögum að deiliskipulagi sem hefur verið kynnt fyrir umhverfis- og skipulagsráði eru íbúðirnar orðnar 1.120.“

Skipulagið segir hann mjög þétt og mikið af umhverfishugsun í því. Þó eigi að rífa sem minnst af því sem til staðar er. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert