Lýsingar danska ljóðskáldsins Yahya Hassan á uppvaxtarárum sínum hafa valdið miklum titringi í dönsku samfélagi. Faðir hans beitti hann og systkin hans grófu ofbeldi sem er lýst af nákvæmni í ljóðunum og gagnrýni hans á íslam er harkaleg. Í kjölfarið hefur verið ráðist á hann og honum hótað lífláti.
Nú er bók hans sem nefnist einfaldlega Yahya Hassan komin út á íslensku og kom hann til landsins í síðustu viku þar sem hann kom fram á Airwaves-hátíðinni ásamt því að lesa fyrir og ræða við framhaldsskólanema.
Fyrir ári réðst herskár íslamisti á Hassan með hnefahöggum á lestarstöð, þá hafa honum borist fleiri tugir hótana sem taka ber alvarlega. Því kemur hann ekki lengur fram nema í fylgd lífvarða.
mbl.is ræddi við Yahya Hassan þegar hann kom fram fyrir fullum sal í FB í síðustu viku.
Leiðrétting: Í myndskeiðinu kemur fram að Hassan hafi alist upp í Óðinsvéum en hið rétta er að hann ólst upp í Árósum.