Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður vinnu stjórnvalda við að létta fjármagnshöftum af íslensku efnahagslífi muni nema 335 milljónum króna og að þeirri vinnu muni ljúka á næsta ári.
Í frumvarpi til fjáraukalaga 2014 er sótt um 255 milljóna framlag vegna vinnu við losun fjármagnshafta.
Fram kemur, að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi í júlí 2014, að loknu ítarlegu valferli og að höfðu samráði við ráðherranefnd um efnahagsmál og stýrinefnd um losun fjármagnshafta, samið við lögmannsstofuna Cleary Gottlieb Steen & Hamilton LLP og ráðgjafafyrirtækið White Oak Advisory LLP um að vinna með íslenskum stjórnvöldum að losun fjármagnshafta. Þá hafi ráðuneytið ráðið teymi sérfræðinga til að vinna að losun hafta með áðurnefndum ráðgjöfum í umboði stýrinefndar.
„Þetta er liður í vinnu stjórnvalda við að létta fjármagnshöftum af íslensku efnahagslífi. Samkvæmt kostnaðaráætlun er gert ráð fyrir að heildarkostnaður nemi 335 m.kr. og að verkefninu ljúki árið 2015. Þar af falla til 255 m.kr. á yfirstandandi ári. Að stærstum hluta er um erlendan lögfræðikostnað og annan sérfræðikostnað að ræða, þýðingar og skjalagerð,“ segir í greinargerð fjáraukalögum.