„Aldrei hefur verið jafn gaman“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

„Af mörgum skemmtilegum stundum, hér á þingi með stjórnarandstöðunni, finnst mér líklegt að þessi muni standa upp úr. Aldrei hefur verið jafn gaman að ræða um skuldamál heimilanna og einmitt þegar leiðrétting verðtryggðra húsnæðismála hefur verið birt landsmönnum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugssson forsætisráðherra, en hann gefur nú munnlega skýrslu um skuldaleiðréttinguna á Alþingi.

„Ég hlakka til fleiri slíkra stunda á næstu misserum þegar önnur stór mál sem varða heimilin í landinu miklu mála verða til lykta leidd,“ sagði Sigmundur Davíð. 

Í umræðum um störf þingsins, sem hófust kl. 15, fögnuðu þingmenn stjórnarmeirihlutans aðgerðum stjórnvalda í skuldamálum heimilanna. Á sama tíma gagngrýndu þingmenn stjórnarandstöðunnar stjórnvöld fyrir að ranga forgangsröðun. 

Missti af tækifærinu árið 2009

Sigmundur Davíð sagði að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hefði misst af tækifæri árið 2009 til að losa um það kreppuástand sem þá ríkti á Íslandi.

„Í kreppunni geta falist tækifæri og þá þarf að hugsa í lausnum. Lausnin í þessu tilviki lá í því að landið hafði að miklu leyti verið afskrifað efnahagslega. Það gafst því tækifæri til að nýta þá staðreynd til að leiðrétta stöðu landsins og heimilanna. Bent var á að íslenska ríkið ætti að kaupa kröfur á hina föllnu banka og færa ætti niður skuldir heimilanna í ljósi þess að verðmæti þeirra hefði þegar verið afskrifað að verulegu leyti. Hvorugt var gert,“ sagði Sigmundur Davíð. 

Hann bætti við að með útsjónarsemi og mikilli vinnu fjölda fólks „hefur nú tekist að snúa við stöðu sem virtist um tíma töpuð og ná bestu mögulegu niðurstöðu.“

Sigmundur sagði að verkefnið hefði aftur á móti verið einfaldara árið 2009 en það var í dag og sömuleiðis hefðu áhrifin orðið enn jákvæðari. „En við skulum láta það liggja milli hluta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert